Krakkafréttir

Stærsti og hæsti sjónauki í heiminum opnar augun

  • eso1137a

Velkomin(n) á stjörnumprýdda frumsýningu á fyrstu mynd flóknasta stjörnusjónauka heims: ALMA! Fyrsta myndin sýnir tvær vetrarbrautir sem kallast Loftnetið og eru að rekast saman. Menn hafa aldrei séð neitt þessu líkt áður.

ALMA líkist hreint ekki dæmigerðum stjörnusjónaukum. Í stað spegils samanstendur hann af 66 loftnetum sem líkjast mest gervihnattadiskum sem nema sjónvarpsmerki. Þessi loftnet eru hins vegar ekki notuð til að taka á móti sjónvarpsútsendingum heldur til að greina það sem kallast hálfsmillímetrabylgjur.

Hálfsmillímetrabylgjur er ljós en með lengri bylgjulengd svo við sjáum það ekki með berum augum. Köldustu fyrirbærin í geimnum, dökk gas- og rykský, gefa slíkt ljós frá sér. Þess vegna eru hálfsmillímetrabylgjur kjörnar til að rannsaka til dæmis vetrarbrautir þar sem ryk og kalt gas í þeim dregur upp lögun þeirra eins og útlínur í litabók.

ALMA er sannkallað samstarfsverkefni því að sjónaukanum standa stjörnufræðingar frá Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu. Auk þess munu öll loftnet sjónaukans vinna saman sem einn risastór sjónauki, álíka stór og höfuðborgarsvæðið, sem gerir honum kleift að sjá miklu betur en eitt stakt loftnet.

Aðeins voru notuð 12 loftnet af 66 til að taka þessa fallegu mynd af Loftnetsþokunum. Sjónaukinn er nefnilega enn í smíðum og verður ekki fullbúinn fyrr en árið 2013. Þrátt fyrir það er þetta besta mynd sem tekin hefur verið af þessum vetrarbrautum í hálfsmillímetra bylgjulengdum. Það besta er rétt handan hornsins!

Skemmtileg staðreynd: ALMA er hæsti og stærsti sjónauki í heiminum. Hann er í 5000 metra hæð yfir sjávarmáli, meira en tvöfalt hærra uppi en hæsta fjall á Íslandi! Ástæðan er sú að ALMA þarf að vera í eins þurru lofti og hægt er því vatnsgufa í andrúmsloftinu gleypir bylgjulengdirnar sem sjónaukinn rannsakar. Loftið er miklu þurrara hátt uppi.