Einmana stjörnueyja

13. ágúst 2012

  • DDO 190, UGC 9240, Dvergvetrarbraut, Óregluleg vetrarbraut
    DDO 190 eða UGC 9240 er óregluleg dvergvetrarbraut í stjörnumerkinu Hjarðmanninum. Hún liggur í um 9 milljóna ljósára fjarlægð. Mynd: ESA/Hubble & NASA.

Sólkerfið okkar er fremur vel staðsett í stórri þyrilvetrarbraut. Á sveimi um hana eru margar dvergvetrarbrautir en það eru líka til margar vetrarbrautir sem eru algerlega einangraðar.  Dvergvetrarbrautin DDO 190, sem sjá má hér að ofan á mynd frá Hubbblesjónauka NASA og ESA, er dæmi um það.

DDO 190 er flokkuð sem óregluleg dvergvetrarbraut þar sem hún er tiltölulega lítil og skortir greinilega byggingu. Við jaðra hennar eru mestmegnis gamlar rauðleitar stjörnur en yngri bláleitari stjörnur eru við þéttari innviðina. Á víð og dreif má sjá nokkkra gas- og rykhnoðra sem ljóma vegna geislunar frá stjörnunum, sá augljósasti sést neðarlega á myndinni. Í bakgrunni má sjá margar þyril-, sporvölulaga og aðrar óskilgreindar vetrarbrautir.

DDO 190 er í um níu milljóna ljósára fjarlægð frá sólkerfinu okkar. Hún er talin hluti af gisnum vetrarbrautarhópi sem kenndur er við Messier 94, ekki svo ýkja langt frá vetrarbrautarhópnum sem inniheldur vetrarbrautina okkar. Kanadíski stjörnufræðingurinn Sidney van der Bergh skrásetti DDO 190 fyrstur manna árið 1959 sem hluta af DDO skránni yfir dvergvetrarbrautir. („DDO“ stendur fyrir David Dunlap Observatory, sem nú er rekin af Royal Astronomical Society of Canada, ,þar sem skráin var sett saman.)

Þótt DDO 190 sé talin hluti af M94 hópnum er hún í raun stök. Sú vetrarbraut sem liggur henni næst er DDO 187 en talið er að þær séu að minnsta kosti í 3 milljóna ljósára fjarlægð frá hvor annarri. Til samanburðar eru dæmigerðar fylgivetrarbrautir, líkt og Magellansskýin, í innan við fimmtung af þeirri fjarlægð sem aðskilur DDO 190 og 187 frá móðurvetrarbrautunum. Jafnvel okkar næsti nágranni, Andrómeduvetrarbrautin, er nær okkur en þær tvær.

Myndina tók Hubblessjónaukinn með Advanced Camera for Surveys og spannar sjónsviðið um það bil 3,3 bogamínútur.

Mynd: ESA/Hubble & NASA.

Um fyrirbærið

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli