Safn ævafornra stjarna

20. ágúst 2012

  • Messier 56,  NGC 6779, M56, Kúluþyrping, Harpan
    Messier 56 er kúluþyrping í stjörnumerkinu Hörpunni og liggur í 33.000 ljósára fjarlægð frá jörðu. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Hubblessjónauki NASA og ESA tók þessa fallegu mynd af kúluþyrpingunni Messier 56 (M56 eða NGC 6779) sem er í um 33.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Hörpunni. Þyrpingin samanstendur af aragrúa stjarna sem þyngdarkrafturinn heldur þétt saman.

Charles Messier vissi reyndar ekki að um kúluþyrpingu væri að ræða þegar hann sá hana fyrst í janúar 1779. Hann lýsti Messier 56 sem „þoku án stjarna“, eins og flestum kúluþyrpingum sem hann fann — sjónauki hans var ekki nægilega góður til að greina í sundur einstaka stjörnur svo þyrpingin leit út eins og þokuhnoðri í augngleri hans. Á mynd Hubbles sjáum við hins vegar greinilega hvernig tækninni hefur fleygt fram í aldanna rás og eflt skilning okkar á stjarnfræðilegum fyrirbærum.

Stjörnufræðingar draga oft mikilvægar ályktani um eiginleika kúluþyrpinga með því að skoða ljós frá stjörnunum í þeim. Þeir þurfa samt sem áður að vera mjög varkárir þegar þeir rannsaka fyrirbæri eins og Messier 56 því hún er staðsett mjög nærri vetrarbrautarslæðunni. Það svæði er yfirfullt af stjörnum úr vetrarbrautinni okkar sem liggja í átt að kúluþyrpingunni en tilheyra henni ekki. Þessi fyrirbæri geta „mengað“ ljósið og því haft áhrif á þær ályktanir sem stjarneðlisfræðingar draga.

Það verkfæri sem vísindamenn nota gjarnan við rannsóknir á stjörnuþyrpingum er Hertzsprung-Russell línuritið. Það graf ber saman birtu stjarna og lit þeirra og  gefur vísindamönnum hugmynd um yfirborðshitastig stjarnanna í þyrpingunni.

Með því að bera saman hágæðaathuganir Hubblessjónaukans við líkön um þróun stjarna geta stjörnufræðingar lýst einkennum þyrpinganna. Í tilviki Messier 56 má álykta að aldur hennar sé um 13 milljarðar ára. Hún er því um þrisvar sinnum eldri en sólin. Enn frekar hefur tekist að ákvarða efnasamsetningu Messier 56. Hún inniheldur tiltölulega fá frumefni sem eru þyngri en vetni og helín sem einkennir oft stjörnur sem urðu til mjög snemma í sögu alheimsins, áður en mörg af þeim frumefnum sem við þekkjum í dag urðu til.

Stjörnufræðingar hafa komist að því að mikill meirihluti kúluþyrpinga með þessa efnasamsetningu liggja í fleti vetrarbrautarinnar. Sú niðurstaða bendir til að vetrarbrautin okkar hafi hrifsað til sín þyrpingarnar af nærliggjandi fylgivetrarbrautum.

Þessi mynd er samsett úr myndum sem teknar voru í nær-innrauðu- og sýnilegu ljósi með Advanced Camera for Surveys. Sjónsviðið spannar um 3,3 bogamínútur. Ein útgáfa af þessari mynd var send inn í Hidden Treasures myndasamkeppni Hubbles. Keppninni er nú lokið og munu niðurstöður hennar verða birtar fljótlega.

Mynd: ESA/Hubble og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: Messier 56
  • Tegund: Kúluþyrping
  • Stjörnumerki: Harpan
  • Fjarlægð: 33.000 ljósár

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli