NGC 7090 - Virk stjörnumyndunarvetrarbraut

10. september 2012

  • NGC 7090, Þyrilvetrarbraut, Stjörnumyndun, Á rönd
    NGC 7090 er þyrilvetrarbraut í stjörnumerkinu Indíánanum. Hún liggur í um 30 milljóna ljósára fjarlægð. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Hér sést vetrarbrautin NGC 7090 eins og hún kemur Hubblessjónauka NASA og ESA fyrir sjónir. Vetrarbrautin er á rönd frá jörðu séð, svo við sjáum ekki þyrilarmana sem eru fullir af ungum og heitum stjörnum.

Á hlið sjáum við hins vegar skífu vetrarbrautarinnar og bunguna í miðjunni þar sem yfirleitt safnast saman kaldar, gamlar stjörnur á litlu kúlulaga svæði. Að auki sést tvennt annað áhugavert á myndinni sem vert er að vekja athygli á.

Í fyrsta lagi getum við borið kennsl á flókið kerfið bleikra svæða út um alla vetrarbrautina. Þetta eru ský úr vetnisgasi sem eru virk stjörnumyndunarsvæði og staðfesta nýlegar rannsóknir sem setja NGC 7090 í flokk virkra stjörnumyndunarvetrarbrauta.

Í öðru lagi má greinilega sjá dökka rykþræði innan í skífu NGC 7090, að mestu í neðri hlutanum. Séð utan frá gleypir þetta ryk að mestu það ljós sem berst úr miðsvæðinu og myndar skuggamyndir framan við ljósari bakgrunninn.

Ryk í vetrarbrautinni okkar hefur löngum verið versti óvinur stjarneðlisfræðinga. En það merkir þó ekki að þessi svæði séu ógegnsæ á himninum. Á nær-innrauðum bylgjulengdum — örlítið lengri bylgjulengdir en í sýnilegu ljósi — er þetta ryk að mestu gegnsætt og geta stjarneðlisfræðingar rannsakað það sem liggur fyrir aftan. Á enn lengri bylgjulengdum, örbygljulengdum, geta stjarneðlisfræðingar rannsakað rykið sjálft, byggingar þess og tengsl við stjörnumyndun.

NGC 7090 er í um 30 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Indjánanum. Það var stjörnufræðingurinn William Herschel sem fyrstur kom auga á vetrarbrautina þann 4. október 1834.

Myndin var tekin með Advanced Camera for Surveys á Hubble og sameinar hún appelsínugult og innrautt ljós en líka ljós frá glóandi vetnisgasi. Ein útgáfa myndarinnar var send inn í Hidden Treasures myndasamkeppnina sem lauk fyrir skemmstu. Listi yfir sigurvegara og myndir þeirra má sjá hér.

Mynd: ESA/Hubble og NASA. Þakkir: R. Tugral

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 7090
  • Tegund: Þyrilvetrarbraut
  • Stjörnumerki: Indíáninn
  • Fjarlægð: 30 milljónir ljósára

Myndir

Tengt efni

Ummæli