Glóandi gas og dökkt ryk í vetrarbraut á rönd

17. september 2012

  • NGC 4634, Þyrilvetrarbraut, Stjörnumyndun, árekstur, bereníkuhaddur
    NGC 4634 er þyrilvetrarbraut sem við sjáum á rönd. Hún liggur í um 70 milljóna ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi. Vetrarbrautin er aflöguð vegna þyngdartogs frá nærliggjandi vetrarbraut, NGC 4633. Mynd: ESA/Hubble & NASA

Hubblessjónauki NASA og ESA tók þessa hnífskörpu mynd af NGC 4634, þyrilvetrarbraut sem við sjáum nánast á rönd. Skífa hennar er örlítið bjöguð vegna víxlverkanna við nágrannavetrarbraut eins og sjá má af rykþráðunum og björtum gasþokunum.

NGC 4634, sem er í um 70 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðu í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi, er önnur tveggja gagnvirkra vetrarbrauta. Nágranni hennar, NGC 4633, er rétt fyrir utan myndina ofarlega til vinstri en hún sést greinilega á víðari mynd. Þótt hún sjáist ekki má með góðum vilja greina örlítil áhrif frá NGC 4633 á myndinni.

Þyngdarvíxlverkanir toga í þyrilarma vetrarbrautarinnar og afmynda hana eftir því sem þær færast nær hvor annarri. Bjögunin hefur áhrif á gasský í henni sem hrindir af stað öflugri stjörnumyndunarhrinu. Þó að þyrillögun vetrarbrautarinnar sé ekki beint sjáanleg er skífulögunin örlítið bjöguð en einnig má sjá greinileg merki um stjörnumyndun.

Þvert yfir alla vetrarbrautina sjást bjartar bleikar gasþokur. Þessi ský líkjast Sverðþokunni í Óríon í vetrarbrautinni okkar, sem er ský úr gasi sem með tíð og tíma myndar stjörnur. Öflug geislun frá stjörnunum örva skýin svo þau skína eins og flúrperur. Fjöldi þessara stjörnumyndunarsvæða eru skýr merki um þyngdarvíxlverkun vetrarbrautanna.

Þvert yfir vetrarbrautina sjást einnig dökkir rykþræði. Þetta er ryk milli stjarnanna í vetrarbrautinni sem skyggir á ljós frá stjörnum í bakgrunni.

Mynd Hubble er samsett úr myndum í sýnilegu ljósi frá Advanced Camera For Surveys og Wide Field and Planetary Camera 2.

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 4634
  • Tegund: Þyrilvetrarbraut
  • Stjörnumerki: Bereníkuhaddur
  • Fjarlægð: 70 milljónir ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli