Hubble myndar rykuga þyrilvetrarbraut

24. september 2012

  • NGC 4183, Veiðihundarnir, Þyrilvetrarbraut, bjálki
    NGC 4183 er þyrilvetrarbraut í stjönumerkinu Veiðihundunum. Hún liggur í um 55 milljóna ljósára fjarlægð. Mynd: ESA/Hubble & NASA

Hubblessjónaukinn hefur enn og aftur náð framúrskarandi ljósmynd af nálægri vetrarbraut. Þessa vikuna skoðum við vetrarbrautina NGC 4183 sem sjá má á myndinni efst ásamt mörgum fjarlægari vetrarbrautum og nálægari stjörnum. Vetrarbrautin er í um 55 milljóna ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Veiðihundunum. Hún er yfir 80 þúsund ljósár á breidd og er því örlítið minni en Vetrarbrautin okkar.

NGC 4183 er þyrilvetrarbraut með daufan kjarna og dreifða þyrilarma. Því miður sjáum við hana á rönd frá jörðu og getum því ekki séð arma hennar. Við getum hins vegar dáðst að vetrarbrautarskífunni.

Skífur vetrarbrauta eru að mestu úr gasi, ryki og stjörnum. Sjá má greinilegar vísbendingar um ryk í fleti vetrarbrautarinnar sem koma fram sem dökkir þræðir sem skyggja á ljós frá kjarna vetrarbrautarinnar. Að auki benda nýlegar rannsóknir til þess að í miðju NGC 4183 gæti verið bjálki. Bjálkar eru taldir virka eins og bygging sem beinir gasi frá þyrilörmunum að kjarnanum og stuðli að stjörnumyndun þar. Stjörnumyndun á sér oftast stað í örmunum en ekki kjörnum vetrarbrauta.

Breski stjörnufræðingurinn William Herschel sá NGC 4183 fyrstur manna þann 14. janúar 1778.

Þessi mynd var sett saman úr myndum teknum í sýnilegu og innrauðu ljósi með Advanced Camera for Surveys á Hubble. Sjónsviðið spannar um það bil 3,4 bogamínútur. Gögnin sem myndin notar voru fundin af Luca Limatola í ljósmyndasamkeppninni Hubble's Hidden Treasures sem lauk fyrir stuttu.

Mynd: ESA/Hubble og NASA. Þakir: Luca Limatola

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 4183
  • Tegund: Þyrilvetrarbraut
  • Fjarlægð: 55 milljónir ljósára
  • Stjörnumerki: Veiðihundarnir

Myndir

Tengt efni

Ummæli