Stjarnfræðilegt ríkidæmi

1. október 2012

  • M69, NGC 6637, Kúluþyrping, Messier 69, Bogamaðurinn
    Messier 69 er kúluþyrping í um 27.900 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Bogamanninum. M69 er sú málmríkasta sem fundist hefur. Mynd: ESA/Hubble & NASA.

Þessi fallega mynd sýnir kúluþyrpinguna Messier 69, eða M69, eins og Hubblessjónauki NASA og ESA ber hana augum. Kúluþyrpingar er þétt söfn gamalla stjarna sem myndast hafa á sama tíma. Á myndinni virðast stjörnur í forgrunni stórar og gylltar þegar þær eru bornar saman við þær þúsundir hvítra stjarna í M69.

Miðað við aðrar kúluþyrpingar er M69 sú málmríkasta sem þekkist. Í stjörnufræði hefur hugtakið „málmur“ sérstaka merkingu: Málmur eru öll þau efni í lotukerfinu sem eru þyngri en algengustu frumefni alheimsins: vetni og helín. Kjarnasamruninn sem knýr stjörnur hefur myndað öll þyngri frumefni náttúrunnar, allt frá kalsíuminu í beinum okkar til kolefnisins í demöntum. Margar kynslóðir stjarna hafa myndað öll þau frumefni sem við sjáum í dag.

Vegna hás aldurs stjarna í kúluþyrpingum eru þær mjög málmsnauðar miðað við yngri kynslóðir stjarna, líkt og sólin okkar. Með því að rannsaka efnasamsetningu stjarna í kúluþyrpingum geta stjarneðlisfræðingar rakið þróun alheimsins.

M69 er í um 29.700 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Bogamanninum. Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier bætti henni við skrá sína yfir þokukennd fyrirbæri á himninum árið 1780. M69 er einnig þekkt sem NGC 6637.

Myndin er samsett úr ljósmyndum teknum í sýnilegu og nær-innrauðu ljósi með Advanced Camera for Surveys á Hubble. Sjónsviðið spannar um það bil 3,4 bogamínútur

Um fyrirbærið

  • Nafn: M69
  • Tegund: Kúluþyrping
  • Fjarlægð: 29.700 ljósár
  • Stjörnumerki: Bogamaðurinn

Myndir

Tengt efni

Ummæli