Stjarnfræðilegur garðúðari

8. október 2012

  • Hen 3-1475, Frumhringþoka, Hringþoka, Bogmaðurinn
    Hen 3-1475 er frumhringþoka í stjörnumerkinu Bogmanninum. Hún liggur í um 18.000 ljósára fjarlægð frá jörðu. Mynd: ESA/Hubble & NASA

Alheimurinn er fullur af dularfullum fyrirbærum. Mörg þeirra eru jafn furðuleg og þau eru falleg. Þar á meðal eru hringþokur með athyglisverðustu fyrirbærum sem sjást á næturhimninum. Engin önnur fyrirbæri eru jafn mismunandi í laginu og að uppbyggingum. Hubblessjónaukinn sér okkur þessa vikuna fyrir áhrifamikilli mynd af Hen 3-1475, hringþoku í mótun.

Hringþokur (e. planetary nebula) voru nefndar svo vegna þess hve líkar þær voru plánetum þegar þær fundust fyrst. Þær eru glóandi skeljar sem þenjast út frá stjörnum sem líkjast sólinni okkar, við endalok lífshlaups þeirra. Þær eru bjartar vegna geislunar frá heitum og samþjöppuðum kjarna sem situr eftir þegar stjarnan þeytir ytri gaslögunum frá sér.

Hver og ein hringþoka er flókin og einstök. Hen 3-1475 er gott dæmi um hringþoku sem er að myndast, skeið í ævi stjörnu sem stjarneðlisfræðingar kalla frumhringþoku.

Miðstjarnan hefur ekki enn náð að þeyta öllum gaslögunum frá sér og nær því ekki að örva gasskelina svo gasið glóir ekki. Hins vegar sjáum við gasið sem þýtur frá stjörninni vegna þess að ljósið endurvarpast frá því. Þegar stjarnan hefur að fullu þeytt frá sér skelinni tekur gasið að glóa og verða fullmynduð hringþoka.

Hen 3-1475 er í stjörnumerkinu Bogmanninum í um það bil 18.000 ljósára fjarlægð. Miðstjarnan er meira en 12.000 sinnum bjartari en sólin. Mest áberandi einkenni hringþokunnar er þykki hringurinn umhverfis miðstjörnuna og tveir S-laga strókar sem standa út úr pólsvæðum hennar. Þessir strókar eru hraðfara gassameindir sem ferðast á hundruðum kílómetra á sekúndu.

Myndun þessara tvípólsstróka hefur valdið undrun meðal stjarneðlisfræðinga í langan tíma. Hvernig getur kúlulaga stjarna myndað jafn flókin form og raun ber vitni. Nýlegar rannsóknir benda til að einkennandi lögun fyrirbærisins og hratt gasflæði eigi rætur að rekja til uppsprettu sem þeytir gasi í sitthvora áttina og snýst umhverfis pólinn einu sinni á þúsund árum eins og risavaxinn, hægfara garðúðari á miðjum himninum. Það er engin tilviljun að stjarneðlisfræðingar hafa gefið fyrirbærinu viðurnefnið „Garðúðaraþokan“.

Þessi mynd var tekin með Wide Field Camera 3 á Hubblessjónaukanum, sem býður upp á töluvert hærri upplausn en eldri athuganir með Wide Field and Planetary Camera 2 eins og sjá má á eldri myndum hér.

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: Hen 3-1475
  • Tegund: Frumhringþoka
  • Fjarlægð: 18.000 ljósár
  • Stjörnumerki: Bogamaðurinn

Myndir

Tengt efni

Ummæli