Áköf stjörnumyndun í dvergvetrarbrautum

22. október 2012

  • NGC 3738, dvergvetrarbraut, stjörnumyndun, óregluleg vetrarbraut
    NGC 3738 er óregluleg dvergvetrarbraut sem tilheyrir Messier 81 vetrarbrautarhópnum. Staðsett í stjörnumerkinu Stórabirni í um 12 milljóna ljósára fjarlægð. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur ljósmyndað daufa og óreglulega hrinuvetrarbraut, NGC 3738. Vetrarbrautin er á miðju stjörnumyndunarskeiði þar sem mikið magni af vetnisgasi breytist í stjörnur. Hubblessjónaukinn sér gasið sem rauða flekki í vetrarbrautinni en það er greinilegasta merkið um stjörnumyndun í vetrarbrautum.

NGC 3738 er í stjörnumerkinu Stórabirni í um það bil 12 milljóna ljósára fjarlægð og tilheyrir Messier 81 vetrarbrautahópnum. Þess vetrarbraut — sem stjörnufræðingurinn William Herschel fann árið 1789 — er nálægt dæmi um bláa samþjappaða dvergvetrarbraut, daufustu gerð stjörnumyndunarvetrarbrauta. Bláar dvergvetrarbrautir eru litlr miðað við stórar þyrilvetrarbrautir. Þannig er NGC 3738 um 10.000 ljósár í þvermál, einungis einn tíundi hluti af stærð okkar vetrarbrautar.

Þessi gerð vetrarbrauta er blá í útliti vegna þess hve mikið er um stórar þyrpingar af heitum, massamiklum stjörnum sem jóna gasið umhverfis þær með orkuríkri útfjólublárri geislun. Þær eru einnig tiltölulega daufar og virðast hafa óreglulega lögun. Ólíkt þyrilvetrarbrautum eða sporvöluvetrarbrautum búa óreglulegar vetrarbrautir ekki yfir neinum einkennandi smáatriðum, eins og miðbungu og þyrilörmum. Þessar vetrarbrautir eru taldar líkjast þeim fyrstu sem mynduðust í alheiminum og gætu veitt vísbendingar um hvernig stjörnur mynduðust stuttu eftir miklahvell.

Þessi mynd var búin til með því að skeyta saman ljósmyndum sem teknar voru í sýnilegu og innrauðu ljósi með Advanced Camera for Surveys á Hubble. Sjónsviðið spannar um það bil 3,4 bogamínútur.

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 3738
  • Tegund: Óregluleg dvergvetrarbraut
  • Fjarlægð: 12 milljónir ljósára
  • Stjörnumerki: Stóribjörn

Myndir

Tengt efni

Ummæli