Óvæntur hópur unglegra stjarna

29. október 2012

  • NGC 6362, kúluþyrping, kjarni, Altarið
    NGC 6362 er kúluþyrping í stjörnumerkinu Altarinu. Hún er í um 28.000 ljósára fjarlægð. Myndin er af kjarna þyrpingarinnar og sýnir óvenjulegan fjölda blárra flækinga. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Hubblessjónauki NASA og ESA tók þessa fallegu mynd af fjölda litríkra stjarna í kjarna kúluþyrpingarinnar NGC 6362.

Kúluþyrpingar eru bundnar saman af þyngdarkraftinu en þær eru samansafn aldraðra stjarna sem eru yfirleitt miklu eldri en sólin okkar, eða í kringum 10 milljarða ára gmlar. Þyrpingar eins og NGC 6362 eru tiltölulega algengar en um það bil 150 slíkar hafa fundist í kringum vetrarbrautina okkar og enn fleiri umhverfis fjarlægar vetrarbrautir.

Kúluþyrpingarnar eru með elstu byggingareiningum alheimsins sem tiltölulega auðvelt er að gera beinar mælingar á. Þær eru eins konar steingervingar frá bernskuárum alheimsins.

Stjarneðlisfræðingar afla mikilvægra upplýsinga um kúluþyrpingar með því að skoða ljósið frá stjörnunum í þeim. Í áranna rás voru þær álitnar kjörnar til að prófa kenningar um þróun stjarna. Í kúluþyrpingum ætti nefnilega næstum allar stjörnur að jafnaldrar.

Nýlegar rannsóknir Hubblessjónaukans á fjölda kúluþyrpinga hafa hins vegar sett spurningamerki við þessa viðtenu kenningu, einkum og sér í lagi vegna þess að nokkrar stjörnur virðast mun yngri og blárri en nágrannar þeirra og hafa verið nefndir bláir flækingar. Í NGC 6362 eru margar slíkar stjörnur.

Þar sem bláa flækinga er að mestu að finna í kjörnum kúluþyrpinga, þar sem þéttleiki stjarnanna er mestur, eru líklegustu skýringarnar á tilvist þessara stjarna þær, að bláu flækingarnir hafi orðið til við árekstur stjarna eða vegna flutnings efnis milli stjarna í tvístirnum. Flutningur efnisins verður til þess að stjarnan hitnar og geislar því eins og hún væri yngri en nágranni hennar.

NGC 6362 er í um 25.000 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Altarinu. Breski stjarnvísindamaðurinn James Dunlop sá þessa þyrpingu fyrstur manna þann 30. júní 1826.

Myndin var sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru í útfjólubláu, sýnilegu og innrauðu ljósi með Advanced Camera for Surveys og Wide Field Camera 3 á Hubble. Næstkomandi miðvikudag mun Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli birta aðra mynd af NGC 6362 sem tekin var með 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum á vef sínum eso.org.

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 6362
  • Tegund: Kúluþyrping
  • Fjarlægð: 28.000 ljósár
  • Stjörnumerki: Altarið

Myndir

Tengt efni

Ummæli