Stjarnfræðilegar eldflugur

12. nóvember 2012

  • 4C 73.08, Vetrarbraut, sporvöluvetrarbraut,
    4C 73.08 er gríðarstór sporvöluvetrarbraut.

Bjartar vetrarbrautir ljóma eins og eldflugur á myrkri nóttu á þessari mynd frá Hubblessjónauka NASA og ESA. Vetrarbrautin á miðri mynd er gríðarstór sporvöluvetrarbraut sem nefnist 4C 73.08. Áberandi þyrilvetrarbraut skín skært neðarlega á myndinni og einnig má sjá vetrarbrautir sem liggja á rönd frá okkur séð víðsvegar á myndinni.

Í sýnilegu og nær-innrauðu ljósi, sem notað var í þessa mynd, virðist 4C 73.08 ekki svo stór. Þegar hún er hins vegar skoðuð á enn lengri bylgjulengdum tekur vetrarbrautin á sig allt aðra mynd. Á útvarpsbylgjusviðinu, þar sem ryk byrgir ekki sýn, má sjá stróka standa út frá kjarnanum þar sem risasvarthol þeytir út efni. 4C 73.08 er flokkuð sem útvarpsvetrarbraut vegna þessarar einkennandi virkni á örbylgjusviði rafsegulrófsins.

Stjarneðlisfræðingar verða að rannsaka fyrirbæri eins og 4C 73.08 á mörgum bylgjulengdum til þess að komast að þeirra sanna eðli, rétt eins og bjarmi frá eldflugu segir okkur ekki mikið um eðli skordýrsins. Með því að skoða 4C 73.08 í sýnilegu ljósi með Hubble má bæði rannsaka byggingu vetrarbrautarinnar og einnig aldur einstakra stjarna og þ.a.l. aldur vetrarbrautarinnar sjálfrar. 4C 73.08 er óneitanlega rauðari en hin bjarta bláleita þyrilvetrarbraut á myndinni. Rauðan lit sporvölunnar má rekja til tilvist margra gamalla rauðleitra stjarna sem leiðir af sér að 4C 73.08 virðist mun eldri hin nærliggjandi þyrilvetrarbrautin.

Myndin var tekin með Wide Field Camera 3 á Hubble í gegn um tvær mismunandi síur. Ein þeirra fangar grænt ljós og önnur rautt og nær-innrautt ljós.

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: 4C 73.08
  • Tegund: Vetrarbraut

Myndir

Tengt efni

Ummæli