Gisin þyrilvetrarbraut

19. nóvember 2012

  • ESO 499-G37, þyrilvetrarbraut
    Þyrilvetrarbrautin ESO 499-G37 í stjörnumerkinu Indíánanum. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur beint sjónum sínum að þyrilvetrarbrautinni ESO 499-G37 sem hér sést fyrir framan aragrúa fjarlægra vetrarbrauta í bakgrunni og fyrir aftan nokkrar nálægar stjörnur í vetrarbrautinni okkar.

Vetrarbrautin hallar örlítið frá okkur séð sem gerir Hubble kleift að greina þyrilarmana með ágætum. Þessir daufu og gisnu armar þekkjast af bláleitu kekkjunum sem umlykja gulleita kjarnann og rekja má til heitra, ungra stjarna í örmunum. Í örmum þyrilvetrarbrauta er mikið magn gass og ryks sem oft eru staðir mikillar stjörnumyndunar.

Bjarti ílangi kjarninn er helsta einkenni þessarar vetrarbrautar. Miðja vetrarbrautar er venjulega þéttasta svæði hennar en þar er saman kominn stór hópur tiltölulega kaldra, gamalla stjarna í kúlulaga svæði.

Margar þyrilvetrarbrautir hafa bjálka sem liggur um miðju þeirra. Bjálkarnir eru taldir flytja gas frá þyrilörmunum inn að miðjunni og örva stjörnumyndun þar.

Nýlegar rannsóknir benda til að kjarni ESO 499-G37 sé umlukinn litlum bjálka sem er nokkur hundruð ljósár að lengd eða um einn tíundi af stærð dæmigerðs bjálka. Stjörnufræðingar telja að svo lítill bjálki gæti leikið mikilvægt hlutverk í myndun bungu vetrarbrauta, því þeir geta flutt efni frá ytri svæðunum í þau innri. Hins vegar eru liggja vensl bjálka- og bungumyndunar ekki ljós fyrir því ekki hafa allar þyrilvetrarbrautir bjálka.

ESO 499-G37 er í um 59 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Indíánanum. Hún tilheyrir NGC 3175 vetrarbrautahópnum í stjörnumerkinu Dælunni.

ESO 499-G37 var fyrst rannsökuð seint á sjöunda áratugnum í ESO/Uppsala Survey of the ESO (B) atlas, samstarfsverkefni Störnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli (ESO) og stjörnustöðvar Uppsala sem notaði eins metra Schmidt sjónauka ESO í La Silla stjörnustöðinni í Chile til að kortleggja stóran hluta af suðurhimninum í leit að stjörnum, vetrarbrautum, þyrpingum og hringþokum.

Þessi mynd var sett saman úr sýnilegum og innrauðum ljósmyndum sem teknar voru með Wide Field rásinni í Advanced Camera for Surveys. Sjónsviðið er um 3,4 bogamínútur á breidd.

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: ESO 499-G37
  • Tegund: Þyrilvetrarbraut

Myndir

Tengt efni

Ummæli