Glimmervetrarbraut

3. desember 2012

  • ESO 318-13, Gisin vetrarbraut, vetrarbraut á rönd
    ESO 318-13 er vetrarbraut umkringd fyrirbærum. Sjá má þónokkrar fjarlægar vetrarbrautir, þ.á.m. eina í gegn um vetrarbrautina sjálfa

Þessi fallegi stafli af stjörnum sem sést á þessari mynd Hubblessjónauka NASA og ESA er vetrarbrautin ESO 318-13. Þrátt fyrir að vera í nokkurra milljóna ljósára fjarlægð frá okkur, þá eru stjörnurnar á þessari mynd svo bjartar að maður gæti því sem næst talið þær.

Þótt ESO 318-13 sé meginviðfangsefni myndarinnar er hún á milli margra bjartra fyrirbæra. Nokkrar stjörnur, bæði nálægar og fjarlægar, eru fyrir framan vetrarbrautina. Ein þeirra, nálægt miðri mynd, sker sig úr en hún virðist vera ótrúlega björt stjarna  innan ESO 318-13. Stjarnan er aðeins í sömu sjónínu og vetrarbrautin og tilheyrir raunar Vetrarbrautinni okkar. Hún skín svona skært því hún er miklu nær okkur en ESO 318-13.

Á myndinni má einnig sjá nokkrar örsmáar glóandi skífur á víð og dreif en þær eru fjarlægar vetrarbrautir. Efst til hægri má greinilega sjá sporvöluvetrarbraut, vetrarbraut sem er mun stærri og fjarlægari en ESO 318-13. Enn forvitnilegra er að sjá að í gegnum ESO 318-13 skín fjarlægari þyrilvetrarbraut.

Vetrarbrautir eru að mestu tómarúm, stjörnurnar innan þeirra telja aðeins lítinn hluta rúmmálsins og ef vetrarbraut inniheldur ekki of mikið ryk, getur hún verið nánast gagnsæ fyrir ljósi sem skín í bakgrunni. Eitt áhrifamikið dæmi um þetta fyrirbæri er vetrarbrautartvíeykið NGC 3314 (Sjá eldri frétt hér).

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: ESO 318-13
  • Tegund: Vetrarbraut

Myndir

Tengt efni

Ummæli