Rykugar skeljar

10. desember 2012

  • NGC 7354, Hringþoka, Sefeus, Skel
    NGC 7354 er hringþoka í stjörnumerkinu Sefeusi og er staðsett í um 5.500 ljósára fjarlægð. Mynd: ESA/Hubble & NASA

Í um 4.200 ljósára fjarlægð frá jörðinni, á heldur tómlegu svæði í geimnum, er einmanna hringþoka sem er mjög erfið viðureignar með áhugamannasjónaukum, NGC 7354. Með hjálp Hubblessjónauka NASA og ESA getum við hins vegar rannsakað þessa einstöku rykskel í mikilli upplausn.

Á ensku nefnast hringþokur planetary nebula eða plánetuþokur. Rétt eins og við á um stjörnuhröp, sem eru í raun ekki stjörnur, tengjast hringþokur plánetum ekki neitt þrátt fyrir nafngiftina. Enska heitið er til komið vegna þess að þegar Sir William Herschel skoðaði hringþoku í sjónauka kom hann aðeins auga á rykótta skel, sem líktist mjög reikistjörnunni Úranusi. Nafnið hefur loðað við fyrirbærin þrátt fyrir að nútíma sjónaukar hafa hjálpað okkur að komast að því, að þessi fyrirbæri eru glóandi ytri gasskeljar sem heit hrörnandi stjarna hefur varpað frá sér.

Talið er að efnisvindar frá miðstjörnunni leiki lykilhlutverk í lögun og byggingu hringþokunnar. Tiltölulega auðvelt er að greina byggingu NGC 7354. Hún inniheldur hringlaga ytri skel, sporvölulaga innri skel, safn bjartra kekkja staðsetta nálægt miðju og tvo samhverfa stróka sem standa úr sitt hvorri hlið hennar. Rannsóknir benda til þess hugsanlega megi rekja til þess að miðstjarnan sé í raun tvístirni. Það hefur hins vegar ekki verið staðfest og því er um getgátur að ræða.

NGC 7354 er í Sefeusi, stjörnumerki sem nefnt er eftir Sefeusi, hinum goðsagnakennda konungi frá Eþíópíu. Þokan er um hálft ljósár í þvermál.

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 7354
  • Tegund: Hringþoka
  • Fjarlægð: 5.500 ljósár
  • Stjörnumerki: Sefeus

Myndir

Tengt efni

Ummæli