Nálin

17. desember 2012

  • Nálin, IC 2233, þyrilvetrarbraut
    Nálin, eða IC 2233, er örmjó þyrilvetrarbraut í stjörnumerkinu Gaupunni. Mynd: ESA/Hubble & NASA

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur fundið nál í heystakki, eða að minnsta kosti tekið mynd af þyrilvetrarbrautinni IC 2233, einni flötustu vetrarbraut sem vitað er um.

Venjulegar þyrilvetrarbrautir, eins og sú sem við búum í, eru yfirleitt byggðar upp af þremur sýnilegum hlutum: Skífu, þar sem mest allt gas og ryk er; hjúpi sem er laus og dreyfð kúla umhverfis skífuna sem inniheldur mjög lítið gas og ryk og að lokum bungu í miðju skífunnar sem samanstendur af stóru safni aldraðra stjarna í kringum miðjuna.

IC 2233 er hins vegar langt frá því að vera venjuleg. Þetta fyrirbæri er gott dæmi um örmjóa vetrarbraut en þvermál hennar er að minnsta kosti tífalt meira en þykktin. Séðar á rönd hafa þessar vetrarbrautir einfaldar skífur. Þetta sjónarhorn gerir þær að áhugaverðu rannsóknarefni og veitir annan vinkil á rannsóknum á vetrarbrautum. Mikilvægt einkenni þessara fyrirbæra er að þær hafa mjög lága yfirborðsbirtu og flestar hafa alls enga miðbungu.

Bláleiti liturinn sem sjá má eftir endilangri skífunni gefur vísbendingar um þyrilbyggingu vetrarbrautarinnar og gefur til kynna að þarna séu heitar, bjartar og ungar stjörnur sem hafa fæðst í rykskýjum. Auk þess hefur IC 2233 enga vel skilgreinda rykslæðu, öfugt við hefðbundna þyrilvetrarbrautir. Einungis má að greina nokkur lítil blettótt svæði í innri svæðum vetrarbrautarinnar, bæði fyrir ofan miðju og neðan.

Nálin er í stjörnumerkinu Gaupunni í um 40 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Breski stjörnufræðingurinn Isaac Roberts fann hana árið 1894. Þessi mynd var tekin með Advanced Camera for Surveys á Hubble. Sjónsvið hennar spannar um 3,4 x 3,4 bogamínútur.

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: Nálin / IC 2233
  • Tegund: Vetrarbraut
  • Fjarlægð: 40 milljónir ljósára
  • Stjörnumerki: Gaupan

Þysjanleg mynd

Myndir

Tengt efni

Ummæli