Ekki trúa þínum eigin augum

31. desember 2012

  • NGC 5011B, NGC 5011C, Þyrilvetrarbrautir, Dvergvetrarbraut
    NGC 5011 B og C eru þyrilvetrarbrautir í stjörnumerkinu Mannfáknum. Önnur (B) tilheyrir vetrarbrautarþyrpingunni í Mannfáknum í 156 millj. ljósára fjarlægð en hin (C) er í 13 millj. ljósára fjarlægð. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Alheimurinn blekkir okkur oft og lætur okkur halda að fyrirbæri á himninum séu í sömu fjarlægð frá jörðu. Gott dæmi um slíkt má sjá á þessari mynd frá Hubblessjónauka NASA og ESA af vetrarbrautunum NGC 5011B og 5011C.

Vetrarbrautirnar eru í stjörnumerkinu Mannfáknum og hafa þær vafist fyrir stjörnufræðingum. NGC 5011B (til hægri) er þyrilvetrarbraut sem tilheyrir vetrarbrautarþyrpingunni í Mannfáknum sem er í um 156 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðu. NGC 5011C (við miðja mynd) var lengi talin hluti af þessari þyrpingu. Hún er hins vegar furðulegt fyrirbæri; hún er álíka dauf og nálæg dvergvetrarbraut en á stærð við venjulega þyrilvetrarbraut.

Útlit NGC 5011C vakti athygli stjörnufræðinga. Væru vetrarbrautirnar tvær nokkurn veginn í sömu fjarlægð frá jörðinni mætti búast við því að þær sýndu einhverskonar merki um víxlverkun þeirra á milli. Svo er hins vegar ekki. Hvernig má það vera?

Til að leysa þetta vandamál hafa stjarneðlisfræðingar rannsakað hraðann sem vetrarbrautirnar eru að fjarlægjast vetrarbrautina okkar. Þeir komust að því að NGC 5011C fjarlægist okkur mun hægar en nágranni sinn og að hraði hennar sé svipaður hraða vetrarbrautanna í hópi A í Mannfáknum sem er í um 13 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Því er NGC 5011C, sem er aðeins 10 milljón sinnum þyngri en sólin, í raun nálæg dvergvetrarbraut en ekki hluti af vetrarbrautaþyrpingunni fjarlægu í Mannfáknum.

Vandamálið leyst!

Myndin var tekin með Advanced Camera for Surveys á Hubble með síum á innrauða og sýnilega sviði rafsegulrófsins.

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 5011 B/C
  • Tegund: Vetrarbrautir
  • Fjarlægð: 156 & 13 milljónir ljósára
  • Stjörnumerki: Mannfákurinn

Þysjanleg mynd

Myndir

Tengt efni

Ummæli