Þýða á Mars

7. janúar 2013

  • HiRISE, Jeans gígurinn, sandöldur, hrím, Mars
    Hrímaðar sandöldur í Jeans gígnum á Mars. Mynd: NASA/JPL/University of Arizona

Hér sést svæði í Jeans gígnum sem er hátt á suðurhveli Mars þegar vorið er hálfnað.

Rétt eins og á jörðinni hverfa hrímlög sem hafa safnast upp yfir veturinn þegar nálgast sumarið og það hlýnar á Mars. Hrímið sem hér sést er þó ekki úr vatnsís eða snjó — á Mars er hrím og ís að mestu úr koldíoxíði sem einnig er þekkt sem þurrís.

Þurrísinn bráðnar ekki heldur fer úr föstu formi í gufu (í ferli sem kallast þurrgufun) þegar hitastigið hækkar (fer yfir um það bil 147 K sem er –126°C). Í leiðinni verða til allskonar forvitnilegar landmyndanir.

Á myndinni sjáum við þurrgufunarbletti (litla bletti þar sem hrím og ís hefur gufað upp og leitt í lós dekkri svæði undir). Við sjáum líka litlar keilur sem myndast þar sem koldíoxíðsgasstrókar brjótast í vegnum veikari svæði á ísnum og varpa dökku yfirborðsefni upp á við sem síðan berst um yfirborðið með vindi (mismunandi stefnur keilanna sýna þar af leiðandi hvernig vindurinn breytist á staðnum).

Stærri dekkri „flæði“ sjást líka; þetta eru skriður sem liggja niður hlíðina (og vísindamenn greinir enn á um hvort eru þurrar eða blautar myndanir). Á næstu vikum munu fleiri samskonar myndanir birtast og vaxa uns nógu hlýtt er orðið á Mars til þess að allt hrím og ís (og þurrgufunarmyndanirnar) hverfi.

Myndin var tekin með HiRISE myndavélinni í Mars Reconnaissance Orbiter þann 20. nóvember 2012. Geimfarið var þá í 250 km hæð yfir staðnum.

Mynd: NASA/JPL/University of Arizona

Um fyrirbærið

Ummæli