Jökulruðningur í fornum árfarvegi

21. janúar 2013

  • Reull Vallis, árfarvegur, Mars
    Reull Vallis er forn árfarvegur á Mars

Þann 14. maí árið 2012 tók High Resolution Stereo Camera (HRSC) í Mars Express gervitungl ESA glæsilegar myndir úr 320 km hæð af svæði sem nefnist Reull Vallis á Mars. Úr myndunum voru útbúin þrívíð gögn af landslaginu.

Reull Vallis er sennilega ævaforn árfarvegur á Promethei Terra hálendinu á Mars. Farvegurinn er hlykkjóttur, teygir sig næstum 1.500 kílómetra yfir yfirborðið og endar í Hellas dældinni sem er stærsta árekstrardældin á Mars (2.300 km á breidd).

Meðfram farveginum eru margar aðrennslisæðar, litlir farvegir sem hafa veitt vatni í þann stóra. Ein æðin sést greinilega ofarlega á efstu myndinni og klýfur sig inn í stóra farveginn.

Reull Vallis, árfarvegur, Mars
Reull Vallis frá öðru sjónarhorni. Mynd: ESA/DLR/FU Berlin (G. Neukum)

Myndir Mars Express sýna aðeins lítinn hluta af Reull Vallis (180 x 80 km breitt svæði) þar sem farvegurinn er næstum 7 km breiður og 300 metra djúpur. Þetta hefur verið heljarinnar fljót!

Eins og sjá má eru bakkarnir sérstaklega brattir. Í farveginum sjálfum eru samsíða línur sem taldar eru hafa myndast af völdum jarðvegs, mulnings og íss sem barst með vatni og jöklum á Amazonsskeiðinu í jarðsögu Mars (það er skeiðið sem nú stendur yfir). Sennilega er enginn ís eftir undir jökulruðningum.

Línurnar urðu til löngu eftir að vatnið hafði sorfið farveginn — á Hespersskeiðinu sem hófst fyrir 3,5 milljörðum ára og lauk fyrir 1,8 milljarði ára. Við sjáum samskonar myndanir í mörgum gígum í kring.

Hægra megin á myndinni sést Promethei Terra hálendið og fjöll sem standa upp úr, sum hver um 2.500 metra yfir flatlendið í kring. Á myndinni hér undir sést eitt þessara fjalla og gíg sem virðist hafa fyllst af seti.

Reull Vallis, árfarvegur, Mars
Fjall sem rís 2.500 metra yfir landslagið í kring og gígur sem hefur fyllst af seti. Mynd: Mynd: ESA/DLR/FU Berlin (G. Neukum)

Landmótunarsaga Reull Vallis virðist bæði flókin og fjölbreytt en líkist á margan hátt því sem við sjáum í kringum jökla á jörðinni, þar á meðal á Íslandi. Þessar heillandi hliðstæður veita reikistjörnufræðingum innsýn í fortíð Mars sem var kannski ekki svo ólík okkar eigin hnetti.

Myndir: ESA/DLR/FU Berlin (G. Neukum)

Um fyrirbærið

  • Nafn: Reull Vallis á Mars
  • Tegund: Árfarvegur

Ummæli