Betelgás býr sig undir árekstur

28. janúar 2013

  • Betelgás, Óríon, Veiðimaðurinn
    Orkuríkt umhverfi rauða risans Betelgás. Mynd: ESA/Herschel/PACS/L. Decin et al.

Nokkrir bogar hafa fundist í kringum Betelgás, nálægustu rauðu reginrisastjörnuna við jörðina, en þeir sjást á þessari nýju mynd Herschel geimsjónauka ESA, evrópsku geimvísindastofnunarinnar. Stjarnan og bogalaga þræðir hennar gætu rekist á sérkennilegan „vegg“ eftir um það bil 5.000 ár.

Betelgás er í öxl stjörnumerksins Óríons (Veiðimannsins). Hún sést mjög vel með berum augum á norðuhveli jarðar á veturhimninum sem appelsínugulleit stjarna fyrir ofan og rétt til vinstri við hið fræga belti Óríons eða Fjósakonurnar.

Betelgás er um 1.000 sinnum stærri en sólin okkar og um 100.000 sinnum bjartari. Þessar háu tölur gefa til kynna stjarnan sé mjög líklega í þann veg að enda ævi sína sem sprengistjarna. Hún hefur nú þegar bólgnað út og orðið að rauðum reginrisa sem hefur varpað frá sér talsverðum hluta af ytri lögum sínum út í geiminn.

Á þessari nýju innrauðu ljósmynd frá Herschel sést hvernig sólvindur stjörnunnar hefur rekist á miðgeimsefnið umhverfis stjörnuna og myndað bogalaga höggbylgju, á meðan stjarnan sjálf geysist um geiminn á 30 kílómetra hraða á sekúndu.

Röð af þessum bogadregnu rykþráðum í hreyfingarstefnu stjörnunnar bera vitni um viðburðarríka sögu og massatap hennar.

Næst stjörnunni sjálfri sést ósamhverfur efnishjúpur. Stórar varmaleiðandi einingar í ytri lofthjúpi stjörnunnar hafa að öllum líkindum leitt til staðbundins massataps á mismunandi stigum í fortíðinni.

Enn lengra frá stjörnunni sést línuleg efnisslæða. Eldri kenningar hafa skýrt þessa myndun þannig að á fyrri stigum ævinnar hafi stjarnan varpað frá sér efni. Niðurstöður rannsókna á þessari nýju mynd benda hins vegar til þess að þarna sé annað hvort brún gasskýs sem Betelgás nær að lýsa upp eða efnisþráður sem rekja má til segulsviðs Vetrarbrautarinnar.

Ef beini þráðurinn er algerlega aðskilin stjörnunni má áætla, út frá hreyfingu Betelgáss og fjarlægð stjörnunnar frá þræðinum, að ysti bogadregni þráðurinn muni rekast á þann beina á næstu 5.000 árum og stjarnan sjálf um það bil 12.500 árum síðar.

Mynd: ESA/Herschel/PACS/L. Decin et al.

Um fyrirbærið

  • Nafn: Betelgás
  • Tegund: Rauður risi
  • Fjarlægð: 640 ljósár
  • Stjörnumerki: Óríón

Mynd í hærri upplausn

Tengt efni

Ummæli