Gamla tunglið í örmum nýja tunglsins

18. febrúar 2013

  • jarðskin
    Jarðskin. Mynd: Ómar Örn Smith

Um það bil þremur dögum fyrir eða eftir nýtt tungl er eins og næturhlið tunglsins sé dauflega upplýst. Þetta sést vel með berum augum en er sérstaklega glæsilegt að sjá í gegnum handsjónauka.

Snemma í síðustu viku tóku margir eftir þessu á kvöldhimninum yfir Íslandi, skömmu eftir sólsetur.

Leonardo Da Vinci útskýrði þetta fyrirbæri fyrstur manna fyrir hartnær 500 árum. Hann áttaði sig á að bæði tunglið og Jörðin endurvarpa sólarljósinu. Þegar sólin sest einhvers staðar á þeirri hlið tunglsins sem snýr að Jörðinni, helst landslagið upplýst vegna sólarljóss sem endurvarpast af Jörðinni á tunglið. Þetta fyrirbæri kallast jarðskin en er líka stundum kallað „gamla tunglið í örmum nýja tunglsins.“

Frá tunglinu séð hlýtur útsýnið að vera glæsilegt. Þegar tunglið er nýtt eða þar um bil er Jörðin að fullu upplýst eða því sem næst með sín hvítu ský, fannhvíta jökla, dimmblá höf, brúnar eyðimerkur og græna skóga.

Birta jarðskinsins er breytileg eftir árstíma en er líka háð magni skýja í lofthjúpnum. Í ljós hefur komið að jarðskinið er bjartast í apríl og maí.

Þessa fallegu mynd tók Ómar Örn Smith úr Hvalfirði þriðjudagskvöldið 12. febrúar 2013. Hann notaði til þess Nikon D600 myndavél með AFS 80-200 linsu, ljósop f4,5 við 200mm brennivídd. Lýsingartíminn var 0,8 sekúndur við ISO 1600.

Stjörnurnar í kring eru í stjörnumerkinu Fiskunum.

Mynd: Ómar Örn Smith

Höfundur: Sævar Helgi Bragason

Um fyrirbærið

  • Nafn: Tunglið
  • Fjarlægð: 384.000 km

Myndir

Tengt efni

Ummæli