Yngsta svartholið?

25. febrúar 2013

  • W49b, sprengistjarna, sprengistjörnuleif
    Sprengistjörnulefin W49b

Þetta litríka og fallega en ósamhverfa ský er sprengistjörnuleif sem kallast W49B. Hún er um þúsund ára gömul og að finna í 26.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Erninum. Í miðju hennar gæti verið yngsta svarthol sem vitað er um í Vetrarbrautinni okkar!

Sprengistjörnur eru alla jafna samhverfar þar sem efnið skýst svo til jafnt í allar áttir út í geiminn. Í tilviki sprengistjörnunnar W49B kastaðist efni nærri skautunum burt frá stjörnunni á mun meiri hraða en frá miðbaugnum.

Með því að rekja dreifingu og magn mismunandi frumefna í leifinni gátu stjörnufræðingar borið saman gögn Chandra röntgengeimsjónauka NASA við kennileg líkön af því hvernig stjarna springur. Sem dæmi fannst járn aðeins í helmingi leifarinnar en önnur efni á borð við brennistein og kísil voru út um allt. Þessar athuganir koma heim og saman við spár um ósamhverfa sprengingu.

Mælingar Chandra og annarra sjónauka sýna einnig að W49B er óvenju tunnulaga miðað við flestar leifar sprengistjarna sem bendir til þess að stjarnan hafi hlotið óvenjuleg örlög.

Oftast þegar massamiklar stjörnur falla saman skilja þær eftir sig þéttan kjarna sem snýst á ógnarhraða og kallast nifteindastjarna. Hægt er að finna þessar nifteindastjörnur með röntgengeisluninni eða útvarpsgeisluninni sem þær gefa frá sér.

En þrátt fyrir ítarlega leit fundust engin merki um nifteindastjörnu í þessu skýi. Það bendir til þess að enn furðulegra fyrirbæri hafi myndast í sprengingunni — svarthol!

Hér er þá hugsanlega um að ræða yngsta svartholið sem vitað er um í Vetrarbrautinni okkar, aðeins um þúsund ára gamalt (frá jörðu séð þ.e.a.s., án þess að ferðatími ljóssins sé tekinn með í reikninginn). SS433 er önnur þekkt sprengistjörnuleif í Vetrarbrautinni okkar sem líklega inniheldur svarthol. Sú leif er talin milli 17.000 og 21.000 ára gömul og því mun eldri en W49B.

Myndin var sett saman úr gögnum frá Chandra röntgengeimsjónaukanum (blá og græn), Very Large Telescope (útvarpsbylgjur, bleikar) og innrauðum mælingum frá Palomar stjörnustöðinni (gul). Sagt var frá þessum niðurstöðum í grein sem birtist 10. febrúar 2013 í Astrophysical Journal.

Mynd: Röntgen: NASA/CXC/MIT/L.Lopez et al.; Innrautt: Palomar; Útvarpsbylgjur: NSF/NRAO/VLA

Höfundr: Sævar Helgi Bragason

Um fyrirbærið

  • Nafn: W49B
  • Tegund: Sprengistjörnuleif
  • Fjarlægð: 26.000 ljósár

Myndir

Ummæli