Vegurinn til Valhallar

11. mars 2013

  • vetrarbrautin, vetrarbrautarslæðan
    Vetrarbrautarslæðan. Mynd: Ómar Örn Smith

Smelltu á myndina til að stækka hana

Ef þú ferð út fyrir borgarljósin á stjörnubjartri og tunglskinslausri vetrarnóttu, kemur þú fjótt auga á daufa, ljósleita slæðu sem liggur þvert yfir himinhvolfið. Þetta er Vetrarbrautin okkar og allar stjörnurnar sem við sjáum á stjörnubjörtu kvöldi tilheyra henni.

Fyrr á tímum höfðu menn engar skýringar á slæðunni á reiðum höndum. Víkingarnir, forfeður okkar, sáu hana fyrir sér sem veginn sem hinir látnu gengu á í veisluhöldin í Valhöll. Í huga Inka var slæðan fljót sem Apu Illapu veitti vatni í til að kalla fram rigningu. Egiptar höfðu svipaða sögu að segja en álitu hana hið himneska Nílarfljót. Grikkir sögðu hana mjólk úr brjósti Heru sem spýttist yfir himininn þegar Seifur reyndi að gefa syni sínum Herkúlesi að drekka í óþökk konu sinnar.

Á myndinni sést svæðið í kringum Sumarþríhyrninginn en bjartasta stjarnan hægra megin við miðja mynd er Vega í Hörpunni. Inn á milli stjörnuskarans sjást dökku rykskýin í Vetrarbrautinni okkar en þau geyma hráefnið í nýjar stjörnur, ný sólkerfi og jafnvel nýtt líf. Litla rákin rétt fyrir ofan bjarmann frá Grindavík er slóð gervitungls.

Ómar Örn Smith tók þessa fallegu mynd þriðjudagskvöldið 18. september 2012 þegar hann var staddur rétt fyrir utan Hafnarfjörð, skammt frá Bláfjöllum. Hann notaði Nikon D800E myndavél með 14mm linsu við f/2,8 og ISO 6400. Lýsingartíminn var 30 sekúndur.

Mynd: Ómar Örn Smith

Höfundur: Sævar Helgi Bragason

Um fyrirbærið

  • Nafn: Vetrarbrautarslæðan

Myndir

Tengt efni

Ummæli