Sandöldur í klettaklifri

25. mars 2013

  • Nereidum Montes, Mars, sandöldur, HiRISE
    Sandöldur í Nereidum Montes á Mars

Hér sést suðurhluti sandöldusvæðis í Nereidum Montes á Mars en þar fylgjast menn með útlitsbreytingum á sandöldum með hjálp HiRISE, öflugustu myndavélar sem send hefur verið til annarrar reikistjörnu, sem er um borð Í Mars Reconnaissance geimfari NASA.

Margar af þessum sandöldum sitja í bröttum hlíðum. Hlíðarnar halla í suðurátt en öldurnar vaxa upp á við til norðurs, sem sést af því að varhliðar þeirra liggja í norðurátt. „Klifuröldur“ eins og þessar hafa fundist víðar á Mars, til að mynda í Valles Marineris, en í þessu tilviki bera þær merki um tiltölulega sterka sunnanvinda.

Á nærmynd sést varhlið einnar sandöldunnar. Að auki sjást nokkur trog sem virðast vera af völdum skriða, líklega þegar sandur rann niður hlíðarnar. Vindurinn blæs hluta sandsins burt og myndar rísandi gárur innan troganna. Þessi mynd, sem og fleiri frá HiRISE, sýna samspil vinds og þyngdarkrafts, tvö af mörgum landmótunarferlum sem eiga sér stað á Mars í dag.

Á vef HiRISE má nú nálgast fjölmargar myndir af Mars með íslenskum skýringartexta. Þetta er fyrsta vefsíða NASA á íslensku!

Mynd: NASA/JPL/University of Arizona

Höfundur: Sævar Helgi Bragason

Um fyrirbærið

  • Nafn: Nereidum Montes
  • Tegund: Sandöldur á Mars

Myndir

Tengt efni

Ummæli