Herschel kannar myndun hámassastjarna

1. apríl 2013

  • stjörnumyndunarsvæði, W3, Herschel geimsjónaukinn
    Stjörnumyndunarsvæðið W3

Hér sést stjörnumyndunarsvæðið W3 á mynd sem Herschel geimsjónauki Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA) tók. W3 er risavaxið sameindaský sem inniheldur stóra og mikla stjörnumyndunarstaði í um 6.200 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í Perseifsarmi Vetrarbrautarinnar.

Skýið er næstum 200 ljósár í þvermál og því með stærstu stjörnumyndunarsvæðunum í ytri hluta Vetrarbrautarinnar. Hér verða til bæði hámassa- og lágmassastjörnur. Mörkin sem skilja á milli eru átta sólmassar: Stjörnur sem eru meira en átta sinnum þyngri en sólin okkar enda ævina sem sprengistjörnur.

Stærstu stjörnurnar eru að myndast í þéttu björtu bláu kekkjunum, sem eru úr heitu ryki, efst til vinstri á myndinni. Þetta eru með yngstu svæðunum í skýinu. Innan í þeim gefa hvítvoðungarnir frá sér orkuríka geislun sem hitar gasið og rykið í kring svo það skín skært í innrauðum augum Herschels.

Á neðri helmingi myndarinnar vinstra megin, og neðarlega hægra megin, má einnig sjá eldri hámassastjörnur sem hita upp rykið í nágrenni sínu.

Rauðu slæðurnar og stólparnir á víð og dreif um myndina eru úr kaldara gasi og ryki. Í sumum þeirra sjást gulir blettir, sem eru kaldir, en þar eru lágmassastjörnur, svipaðar sólinni, í mótun.

Mynd: ESA/PACS & SPIRE samstarfið, A. Rivera-Ingraham & P.G. Martin, University of Toronto, HOBYS Key Programme (F. Motte)

Höfundur: Sævar Helgi Bragason

Um fyrirbærið

  • Nafn: W3
  • Tegund: Stjörnumyndunarsvæði

Tengt efni

Ummæli