Vetrarbrautin og halastjarnan

8. apríl 2013

  • Halastjarnan PanStarrs og Andrómeduvetrarbrautin. Mynd: Pavel Smilyk

Um miðja 18. öld leitaði franski stjörnufræðingurinn Charles Messier nótt eftir nótt að halastjörnum á næturhimninum yfir París. Messier skannaði himininn kerfisbundið og kom sífellt auga á þokukennd fyrirbæri sem líktust mjög halastjörnum en reyndust það ekki við nánari athugun.

Til að koma í veg fyrir rugling og auðvelda stjörnufræðingum að finna halastjörnur, ákvað Messier að taka þessi þokukenndu fyrirbæri saman í eina skrá. Þegar yfir lauk hafði Messier skrásett hátt í hundrað fyrirbæri sem við vitum í dag að eru fjarlægar vetrarbrautir, stjörnuþyrpingar og geimþokur; fyrirbæri sem stjörnuáhugafólk nefnir einu nafni djúpfyrirbæri.

Þann 4. apríl síðastliðinn sást vel hvers vegna menn gátu ruglað djúpfyrirbærunum saman við halastjörnur. Þá mættust á himninum halastjarnan PanStarrs og Andrómeduvetrarbrautin, einnig þekkt sem Messier 31 (31. fyrirbærið sem Messier skrásetti).

Rússneski stjörnuáhugamaðurinn Pavel Smilyk tók þessa mynd af samstöðinni þegar hún stóð sem hæst. Þótt fyrirbærin tvö virðist nálægt hvort öðru á myndinni er bilið á milli þeirra ótrúlega mikið. Ljósið frá halastjörnunni er aðeins örfáar mínútur að berast til Jarðar á meðan ljósið frá Andrómeduvetrarbrautinni var 2,5 milljónir ára á leiðinni. Milli halastjörnunnar og vetrarbrautarinnar glittir í Messier 32, fylgivetrarbraut Andrómeduvetrarbrautarinnar.

Smilyk notaði Canon 1100Da myndavél og lýst tvisvar í 27 mínútur.

Mynd: Pavel Smilyk

Höfundur texta: Sævar Helgi Bragason

Um fyrirbærið

  • Nafn: Messier 31 og PanSTARRS
  • Tegund: Vetrarbraut og halastjarna

Tengt efni

Ummæli