Stækkunargler í geimnum

13. maí 2013

  • vetrarbrautaþyrping, Abell S1077, þyngdarlinsa
    Vetrarbrautaþyrpingin Abell S1077. Mynd: ESA/Hubble og NASA. Þakkir: N. Rose

Á þessari ljósmynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést vetrarbrautaþyrpingin Abell S1077. Vetrarbrautir innihalda hundruð milljarða stjarna og hópast saman í stórar þyrpingar sem eru stærstu einingar alheimsins sem þyngdarkrafturinn bindur saman.

Í vetrarbrautaþyrpingum er svo mikið efni að þyngdarkraftuinn bjagar tímarúmið. Þegar ljósgeislar ferðast í gegnum þær, sveigja þeir af leið. Í sumum tilvikum verður til fyrirbæri á þennan hátt sem minnir stækkunargler og gerir okkur kleift að sjá fyrirbæri á bak við þyrpinguna sem annars sæist aldrei frá Jörðinni. Á myndinni sjást rákir sem líkjast rispum á linsu en eru í raun ljós frá vetrarbrautum sem hefur bjagast mjög vegna þyngdarsviðs þyrpingarinnar.

Stjörnufræðingar nota sjónauka eins og Hubble og þyngdarlinsur til að horfa lengra aftur í rúm og tíma til að sjá fjarlægustu fyrirbærin frá árdögum alheims. Með hjálp þyngdarlinsa eins og þeirrar sem hér sést, MACS J0647.7+7015, hafa Hubble og Spitzer geimsjónaukarnir komið auga á eina fjarlægustu vetrarbraut sem sést hefur, MACS0647-JD. Ljósið frá henni hefur verið 13,3 milljarða ára að berast til okkar.

Mynd: ESA/Hubble og NASA. Þakkir: N. Rose

Um fyrirbærið

  • Nafn: Abell S1077
  • Tegund: Vetrarbrautaþyrping og þyngdarlinsa

Ummæli