Messier 61 horfir í myndavélina

17. júní 2013

  • Messier 61, vetrarbraut, þyrilvetrarbraut
    Þyrilvetrarbrautin Messier 61 í stjörnumerkinu Meyjunni. Mynd: NASA/ESA og Hubble

Hubble geimsjónauki NASA og ESA tók þessa mynd af Messier 61, þyrilvetrarbraut sem er 100.000 ljósár í þvermál og í um 55 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Þessi vetrarbraut er frægust fyrir að hýsa óvenju margar sprengistjörnur en sex slíkar hafa sést í henni frá því hún fannst.

Frá Jörðu séð horfum við ofan á Messier 61. Það gerir okkur kleift að rannsaka tignarlega þyrilarma hennar í smáatriðum. Bláu kekkirnir í örmunum eru ungar nýmyndaðar stjörnuþyrpingar sem innihalda mjög heitar stjörnur. Á milli þeirra sjást dökku geimþokurnar sem geyma hráefnið í nýjar stjörnur. Myndin var tekin með Wide Field Camera 2 í Hubblessjónaukanum.

Messier 61 tilheyrir Meyjarþyrpingunni, risavöxnum hópi vetrarbrauta í stjörnumerkinu Meyjunni. Vetrarbrautaþyrpingar eru stærstu einingar alheims sem þyngdakrafturinn heldur saman. Í Meyjarþyrpingunni eru yfir 1.300 vetrarbrautir en hún er þungamiðja Grenndar-ofurþyrpingarinnar, enn stærra safns vetrarbrauta.

Höfundur texta: Sævar Helgi Bragason

Mynd: ESA/Hubble og NASA. Þakkir: G. Chapdelaine, L. Limatola og R. Gendler.

Myndir

Tenglar

Ummæli