Hamfaraflóð á Mars

24. júní 2013

  • Kasei Valles, Mars
    Kasei Valles á Mars

Margt er líkt með jarðmyndunum á Íslandi og Mars en líka margt mjög ólíkt. Á Íslandi eru mörg ummerki hamfaraflóða sem, þótt risavaxin séu, eru dvergvaxin í samanburði hamfaraflóð á Mars.

Þessi glæsilega mynd var sett saman úr 67 ljósmyndum sem Mars Express geimfar ESA, Geimvísindastofnunar Evrópu, tók. Hún var birt í tilefni þess að nú eru liðin 10 ár frá því að geimfarið komst á braut um rauðu reikistjörnuna.

Staðurinn nefnist Kasei Valles og er eitt stærsta árfarvegakerfið á Mars, nærri 3.000 km að lengd. Landslagslækkunin á þessum slóðum er um 3 km en flóðasléttan endar á Chryse Planitia, lendingarstað Viking 1 geimfarsins árið 1976. Einmitt þess vegna var ákveðið að lenda Viking 1 þar.

Nokkur hamfaraflóð surfu Kasei Valles fyrir um það bil 3 milljörðum ára eða um svipað leyti og eldfjöllin stóru á Þarsisbungunni, sem er í nágrenninu, urðu til. Kannski urðu nokkur stórgos undir jökli sem bræddu óhemju magn íss og komu hlaupunum af stað. Við eldvirknina reis og seig land sem hafði sömuleiðis mikil áhrif á svæðið.

Kasei Valles klofnar í tvo farvegi í kringum Sacra Mensa (neðarlega hægra megin á efri myndinni), stapa sem rís 2 km yfir farvegina — ekki ósvipað Eyjunni í miðju Ásbyrgi nema miklu stærri. Reyndar eru nokkrar straumlínulagaðar eyjur af sama meiði í Kasei Valles.

Kasei Valles, Mars
Straumlínulagaðar eyjar í Kasei Valles, risavöxnu flóðasvæði á Mars

Höfundur texta: Sævar Helgi Bragason

Myndir: ESA/DLR/FU Berlin (G. Neukum)

Tenglar

Ummæli