Fullt tungl yfir Herðubreið

1. júlí 2013

  • fullt tungl, Herðubreið
    Fullt tungl yfir Herðubreið. Mynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sunnudaginn 23. júní síðastliðinn var fullt tungl á sama tíma og það var næst Jörðinni. Tunglið var þá í um 357 þúsund km fjarlægð frá okkur. Þetta var því stærsta fulla tungl ársins 2013. Sumir vilja kalla það „ofurmána“ þótt vísindalegra heiti sé „fullt tungl í jarðnánd“.

Sjáanlega er munurinn á stærsta fulla tungli ársins og dæmigerðu fullu tungli hverfandi lítill — vart greinilegur. Fullt tungl í jarðnánd er 14% stærra og 30% bjartara en fullt tungl í jarðfirð. Meira að segja þá er erfitt að koma auga á muninn.

Kvöldið áður var tunglið samt sérstaklega glæsilegt þar sem það sveif rétt fyrir ofan sjóndeildarhringinn. Lára Hanna Einarsdóttir, þýðandi, var þá stödd á Grímsstöðum á Fjöllum og tók þessar fallegu myndir af Mánanum lágt á himni yfir hinni 1677 metra háu Herðubreið.

Á efstu myndinni sést drottning íslenskra fjalla með skýjaslæðu yfir kollinum og snæviþaktar hlíðar. Myndin hér undir var tekin um það bil klukkustund fyrr, skömmu eftir að tunglið reis upp fyrir Fremri Grímsstaðanúp sem er 881 metra hár.

fullt tungl, Herðubreið

Á þriðju myndinni birtast Dyngjufjöll hægra megin við Herðubreið. Jörðin hafði þá kólnað hratt eftir hlýjan sólskinsdag. Neðsta lag loftsins fór undir daggarmark svo dalalæða eða lágþoka myndaðist. Dalalæðan liggur eins og teppi yfir jörðinni og gefur þessari kyrrlátu og fallegu mynd draumkenndan blæ.

fullt tungl, Herðubreið

Höfundur texta: Sævar Helgi Bragason

Myndir: Lára Hanna Einarsdóttir

Tenglar

Ummæli