Stóri bróðir Vetrarbrautarinnar

8. júlí 2013

  • NGC 6744, NGC 6744A, Þyrilvetrarbraut, Páfuglinn
    NGC 6744 er þyrilvetrarbraut í stjörnumerkinu Páfuglinum. Mynd: NASA/Caltech/GALEX

Þessi mynd Galaxy Evolution Explorer (GALEX) gervitungls NASA sýnir NGC 6744, eina af þeim vetrarbrautum sem líkist okkar eigin hvað mest. Myndin er tekin í útfjólubláu ljósi og sýnir gríðarstóra þyrilarma og að stjörnumyndun getur átt sér stað í ytri svæðum vetrarbrauta. NGC 6744 er í stjörnumerkinu Páfuglinum.

NGC 6744 er stærri en Vetrarbrautin okkar en skífa hennar er nærri 175.000 ljósár í þvermál. Lítil óregluleg vetrarbraut, sem nefnist NGC 6744A, er skammt frá henni og minnir óneitanlega á Stóra-Magellansskýið. Þessi fylgivetrarbraut sést sem lítil klessa í ytri þyrilarmi stærri vetrarbrautarinnar, ofarlega til hægri.

Jet Propulsion Laboratory (JPL) hafði umsjón með GALEX verkefninu fyrir hönd NASA. Nálgast má fleiri myndir og upplýsingar á vefsíðu verkefnisins.

Höfundur texta: Tryggvi Kr. Tryggvason

Mynd: NASA/JPL-Caltech

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 6744
  • Tegund: Vetrarbraut
  • Stjörnuerki: Páfuglinn
  • Fjarlægð: 30.9 milljónir ljósára

Myndir

Ummæli