Jörðin með augum Cassini og Messenger

29. júlí 2013

  • Cassini, Messenger, jörðin
    Jörðin séð með augum Messenger og Cassini

Föstudagskvöldið 19. júlí síðastliðinn tóku Cassini geimfarið sem svífur um Satúrnus og Merkúríusarfarið Messenger þessar myndir af okkur jarðarbúum. Margir veifuðu sérstaklega í átt til Satúrnusar um það leyti sem Cassini smellti af.

Á myndinni frá Cassini (sú vinstra megin) sjást jörðin og tunglið sem ljós blettur fyrir miðri mynd, aðeins hægra megin. Á þessu augnabliki erum við í 1,44 milljarða kílómetra fjarlægð frá myndavélinni. Hringakerfi Satúrnusar sést líka vel á myndinni, en það er að mestu gert úr ís, sem skýrir hvers vegna þeir endurvarpa ljósi nógu vel til að við sjáum af þeim glampann alla leið til jarðar. Hugsanlegt er að hringarnir hafi myndast þegar Satúrnus hremmdi halastjörnur (sem eru að mestu leyti úr ís) á sporbaug um sig. Flóðkraftar Satúrnusar hafi síðan í tímans rás brotið upp halastjörnurnar og smám saman myndað hringakerfið.

Enkeladus sem er eitt af tunglum Satúrnusar, sér um að halda við E-hringnum svokallaða. Það spýr köldu vatni úr miklum goshverum á yfirborðinu og bætir þannig stöðugt í hann.

Á Messenger myndinni sem er aðeins tekin úr 98 milljón km fjarlægð, sjást bæði jörðin og tunglið glögglega. Myndin er tekin á löngum tíma, svo hnettirnir virðast mun stærri en þeir eru í raun úr þessari fjarlægð. Þegar myndir eru teknar af daufum fyrirbærum er ljósi safnað í langan tíma, svo nánasta nágrenni í kringum ljósuppsptettur mettast á myndinni. Á þessari mynd spanna tunglið og jörðin hvort um sig minna en einn mynddíll.

Sjá einnig: Þú ert á þessari mynd! Jörðin og tunglið frá Satúrnusi

Mynd: NASA/JPL/Space Science Systems

Ottó Elíasson.

Ummæli