Flamingói tekur mynd af Svani

12. ágúst 2013

  • Messier 17. Svansþokan, Omegaþokan
    Svansþokan, Messier 17. Mynd: Gemini Observatory/AURA

Árið 1745 kom svissneski stjörnufræðingurinn Jean-Philippe Loys de Chéseaux auga á þoku í stjörnumerkinu Bogmanninum. Enginn vissi hvers eðlis þokan var fyrr en rúmum 120 árum síðar þegar enski stjörnufræðingurinn William Huggins beindi litrófsrita að henni og komst að því að um glóandi gasský var að ræða.

Í gegnum litla stjörnusjónauka minnir þokan suma á gríska bókstafinn Omega. Aðrir sjá skefu eða jafnvel humar út úr henni. Margir sjá svan með áberandi langan en boginn háls.

Svansþokan eða Omegaþokan, einnig kölluð Messier 17, er í um 5.500 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Hún er um 15 ljósár á breidd og inniheldur efni sem nægði í 800 nýjar sólir.

Í Svansþokunni eru nýjar stjörnur einmitt að verða til. Þær gefa frá sér orkuríka geisla sem örvar gasið í skýinu svo það glóir.

Þessi glæsilega nær-innrauða ljósmynd af hluta Svansþokunnar var tekin með FLAMINGOS-2, nýrri myndavél og litrófsrita fyrir innrautt ljós á Gemini suður sjónaukanum í Chile.

Mynd: Gemini Observatory/AURA

Höfundur texta: Sævar Helgi Bragason

Ummæli