Melatíglar við suðurpól Mars

19. ágúst 2013

  • Mars, melatíglar
    Melatíglar við suðurpól Mars. Mynd: NASA/JPL/University of Arizona

Rétt eins og á Jörðinni er vatnsís á báðum heimskautssvæðum Mars. Mars er hins vegar svo miklu kaldari að ísinn sem leggst árstíðabundið yfir hæstu breiddargráðurnar á veturnar og gufar upp að vori (hliðstætt snjó á veturna hjá okkur), er í raun koldíoxíðís. Umhverfis suðurpólinn eru staðir þar sem þessi ís hverfur ekki alltaf. Þessi þaulsetni þurrís er kallaður „afgangsíshetta suðurpólsins“.

Hvítu skellurnar á myndinni eru hlutar af afgangsíshettunni. Sólarljósið stefnir frá neðri hluta myndarinnar sem ekki verið varpað á kort. Skellurnar eru úr koldíoxíðís og eru mjög bjartar miðað við bakgrunninn, jafnvel þótt landslagið undir innihaldi mikinn vatnsís blönduðum fínum bergögnum og ryki.

Áhugaverðar og myndrænar myndanir í landslaginu eru misstórir melatíglar. Línurnar á dökka landslaginu eru mörk tíglanna sem geta verið allt að 10 til 15 metra breiðir. Hitastig jarðvegsins breytist yfir árið sem veldur því að hann þenst út og dregst saman á víxl. Þá myndast sprungur og trog í landslaginu sem geta fyllst að hluta til af hrími og myndað tíglamynstrið sem sést á myndinni.

Melatíglarnir á ljósa koldíoxíðsvæðinu eru af öðrum toga. Í fyrsta lagi eru þeir miklu stærri, allt að 20 til 40 metra breiðir. Í öðru lagi eru þeir (í flestum tilvikum) markaðir af þunnum hryggjum en ekki mjóum trogum. Sjaldgæfust eru trog þar sem hryggir ættu að vera en það er til vitnis um flóknar myndanir sem urðu til við aðstæður sem ekki eru á Jörðinni (í föstu koldíoxíði), við aðstæður sem eru gerólíkar Jörðinni okkar: Mikinn kulda og mjög lágan loftþrýsting.

Mynd: NASA/jPL/University of Arizona

Texti: University of Arizona/Sævar Helgi Bragason

Ummæli