Hubble skoðar geimlirfu

2. september 2013

  • Frumstjarnan IRAS 20324+4057 í 4.500 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Mynd: NASA, ESA, Hubble Heritage Team (STScI/AURA) og IPHAS
    Frumstjarnan IRAS 20324+4057 í 4.500 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Mynd: NASA, ESA, Hubble Heritage Team (STScI/AURA) og IPHAS

Þessi gas- og rykhnoðri, sem er eitt ljósár að lengd, er í 4.500 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Svaninum. Öflugir vindar og geislun frá óhemju skærum stjörnum í nágrenninu berja stöðugt á hnoðranum og hafa móta hann svo hann minnir um margt á lirfu.

Geislunin og vindarnir koma frá 65 O-stjörnum, heitustu og björtustu stjörnum sem vitað er um, sem eru í 16 ljósára fjarlægð frá fyrirbærinu, við hægri brún myndarinnar. Þessar stjörnur auk 500 daufari en mjög björtum B-stjörnum mynda það sem kallast Cygnus OB2 stjörnufélagið. Samanlagt er þetta stjörnufélag meira en 30.000 sinnum efnismeira en sólin.

Fyrirbærið á myndinni er frumstjarna sem nefnist IRAS 20324+4057. Stjarnan er mjög skammt á veg komin í þróuninni og er enn að sanka að sér efni úr gashjúpnum sem umlykur hana. Hjúpurinn er hins vegar að fjúka burt vegna vinda og geislunar frá Cygnus OB2 stjörnufélaginu.

Frumstjörnur á þessum slóðum ættu að lokum að verða álíka massamiklar og sólin okkar en sökum nálægðar við stjörnufélagið gæti massinn orðið minni.

Athuganir á IRAS 20324+4057 sýna að hún er enn að safna að sér efni í miklum mæli. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort stjarnan verður að lokum þungavigtarstjarna eða fjaðurvigtarstjarna.

Mynd: NASA, ESA, Hubble Heritage Team (STScI/AURA) og IPHAS

Ummæli