Vindborið set á Mars

23. september 2013

  • Vindborið set á Mars
    Vindborið set á Mars

Þetta litríka svæði er að finna í Noctis Labyrinthus, hátt á Þarsis bungunni á efri svæðum Valles Marineris gljúfrakerfisins. Myndin var tekin með HiRISE myndavélinni í Mars Reconnaissance Orbiter geimfari NASA.

HiRISE var sérstaklega beint að ljósleitu skellunum á brúnum berggrunnsins, en á myndinni sést líka víxlverkun tveggja ólíkra gerða af vindbornu seti. Í kringum berggrunnsskellurnar eru ljósrauðir hryggja með flókna samtengda formgerð. Þessir ljósu hryggir líkjast „þverlægum fokhryggjum“ (e. transverse aeolian ridges eða TARs) sem eru algengir á miðbaugssvæðum Mars.

Lítið er vitað um þverlæga fokhryggi en myndun þeirra er oftast eignuð sköflum sem myndast við breytilegar vindáttir, skafla með grófa kornastærð eða harðnað rykset. Athuganir HiRISE á þverlægum fokhryggjum hingað til hafa sýnt, að þessar setmyndanir eru stöðugar á löngum tímaskölum sem bendir til að þær myndist hægt yfir langan tíma, mun lengri en endingartíma MRO leiðangursins, eða að þær hafi myndast í fortíðinni við allt aðrar loftslagsaðstæður en í dag.

Dökkar sandöldur samanstanda af annars konar vindbornu seti en því sem sést á myndinni. Dökku sandöldurnar rétt fyrir neðan gíginn á úrklippunni bera einkenni sem eru algeng í virkum sandöldum sem HiRISE hefur komið auga á annars staðar á Mars, þar á meðal hópa lítilla sandgára þvers og kruss ofan á öldunni. Í mörgum tilvikum er það færsla þessara litlu gára sem knýja framrás sandalda á Mars. Dökku öldurnar eru úr ögnum járnríkra steinda úr eldfjallabergi á Mars, ólíkt ljósu, kvarsríku sandöldunum á Jörðinni.

Á myndinni sést dökkur sandur ofan á ljósu kerfi þverlægra fokhryggja, en það bendir til þess að sandöldurnar séu yngri en fokhryggirnir. Ferskt útlit sandaldanna bendir ennfremur til þess, að þær séu virkar í dag og hjálpa eflaust til við að móta óvenjulega formgerð fokhryggjanna með því að sandblása þá.

Mynd: NASA/JPL/University of Arizona

Ummæli