Sólblossi að X-styrk

4. nóvember 2013

  • Sólblossi 29. október 2013
    Sólblossi 29. október 2013

Á 11 ára fresti eða svo kemst virkni sólar í hámark. Þá verða sólblossar tíðari og stundum fylgja þeim kórónuskvettur sem, ef þær ná til jarðar, geta myndað glæsileg norðurljós.

Þann 29. október 2013 varð einn öflugasti sólblossi þessa árs sem mældist X2,3 að styrkleika. Blossann mátti rekja til sólblettasvæðisins AR1875 og náði hann hámarki klukkan 21:48 að íslenskum tíma. Solar Dynamics Observatory gervitungl NASA fylgdist grannt með og tók þessa mynd. Þetta var fjórði blossinn á einni viku sem náði upp í styrkleika X.

Við sólblossa berst hrina orkuríkrar geislunar frá sólinni. Skaðlegu geislarnir komast ekki í gegnum lofthjúp Jarðar og hafa því engin áhrif á fólk á jörðu niðri. Þeir geta hins vegar valdið truflunum í jónahvolfi jarðar og þannig haft áhrif á fjarskipti og gervitungl. Fjarskiptatruflanir geta staðið yfir jafnlengi og blossinn, allt frá nokkrum mínútum upp í klukkustundir.

Mynd: NASA/SDO
Texti: Sævar Helgi Bragason

Ummæli