Þegar heimurinn brosti

18. nóvember 2013

  • Satúrnus þegar heimurinn brosti
    Satúrnus þegar heimurinn brosti

Þann 19. júlí 2013 flaug Cassini geimfar NASA inn í skugga Satúrnusar og tók mynd af reikistjörnunni og hringunum, sjö af tunglum hans og þremur öðrum reikistjörnum: Mars, Venusi og Jörðinni.

Myndin er ekki aðeins falleg, heldur harla séstök líka, því þetta er í þriðja sinn sem mynd er tekin af heimaplánetu okkar úr ytra sólkerfinu, en í fyrsta sinn sem allir jarðarbúar voru látnir vita af því fyrirfram. Margir tóku sig því til og brostu og vinkuðu til Satúrnusar.

Á myndinni, sem er í eðlilegum lit, er sólin fyrir aftan Satúrnus og lýsir upp hringana á þennan einstaka hátt. Á fjórum klukkustundum tók Cassini 323 ljósmyndir en þessi mynd samanstendur af 141 myndum sem búið er að skeyta saman. Myndin spannar 651.591 km.

Yst sést E-hringur Satúrnusar. Hann á rætur að rekja til ísgosstróka frá tunglinu Enkeladusi sem sést í hringum til vinstri. Á myndinni sjást líka sex önnur tungl sem búið er að merkja inn á myndina hér undir.

Þann 19. júlí 2013 flaug Cassini geimfar NASA inn í skugga Satúrnusar og tók mynd af reikistjörnunni og hringunum, sjö af tunglum hans og þremur öðrum reikistjörnum: Mars, Venusi og Jörðinni.
Satúrnus, hringarnir, sjö tungl og þrjár aðrar reikistjörnur. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.

Neðarlega til hægri á myndinni, milli ljósbláa E-hringsins og daufa en þétta G-hringsins, er lítill, ljósblár blettur: Jörðin. Ef grannt er skoðað sést tunglið skaga út úr hægri hlið hennar en það sést betur á myndinni hér fyrir neðan.

Jörðin og tunglið séð frá Satúrnusi
Jörðin, tunglið og Satúrnus á einni mynd!

Cassini geimfarið var í um það 1,2 milljón km fjarlægð frá Satúrnusi — þrisvar sinnum lengra en tunglið er frá Jörðinni — þegar myndin var tekin. Horft er undir hringana.

Myndir: NASA/JPL-Caltech/SSI

Tenglar

Ummæli