Murray hryggur á Mars

25. nóvember 2013

  • Murray hryggur á Mars
    Murray hryggur á Mars

Undanfarnar vikur hefur Marsjeppinn Opportunity rannsakað Murray hrygginn sem hér sést. Hryggurinn er á vesturhluta Endeavour gígsins á Mars og rís hann um 40 metra yfir sléttuna í kring, en sá hluti hans sem hér sést er um 10 metra hár. Í fjarska, vinstra megin á myndinni, sést barmur Endeavour gígsins, um 22 km í burtu.

Hryggurinn er nefndur eftir Bruce Murray sem lést fyrr á þessu ári. Murray var áhrifamikill baráttumaður fyrir könnun sólkerfisins og tók þátt í fyrstu leiðöngrum NASA til Mars. Hann varð síðar forstöðumaður Jet Propulsion Laboratory í Pasadena í Kaliforníu og stofnaði The Planetary Society ásamt þeim Louis Friedman og Carl Sagan.

Opportunity lenti á Mars í janúar 2004 og hefur síðan ekið um sléttur Meridiani Planum. Á þeim tíma hefur hann fundið ýmsar sannanir fyrir fljótandi vatni í fyrndinni. Jeppinn hefur rannsakað vesturbarm Endeavour gígsins frá því í ágúst 2012.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/Cornell/ASU

Texti: Sævar Helgi Bragason

Ummæli