Jarðarupprás

23. desember

  • Jarðarupprás, Apollo 8
    Jarðarupprás, Apollo 8

Á vetrarsólstöðum þann 21. desember árið 1968, settust þeir Frank Borman, Jim Lovell og Bill Anders um borð í Apollo 8 á Satúrnus 5 risaflauginni. Þremenningarnir voru á leið í hættulegasta ferðalag sem mannkynið hafði nokkurn tímann lagt upp í, ferðalagið frá Jörðinni til tunglsins.

Enginn maður hafði nokkurn tímann ferðast jafn langt frá Jörðinni. Geimfararnir þrír voru fyrstu mennirnir til að sjá Jörðina í öllu sínu veldi, Jörðina sem plánetu, Jörðina í sínu rétta samhengi í alheiminum.

Ferðalagið til tunglsins tók þrjá sólarhringa. Á aðfangadag var eldflaug Apollo 8 ræst sem hægði á ferðinni og kom geimfarinu á braut um tunglið. Næstu tuttugu klukkustundir fór Apollo 8 tíu hringi um það.

Eftir fjórðu ferðina í kringum tunglið upplifðu geimfararnir nokkuð sem þeir höfðu ekki leitt hugann að. Þeir sáu Jörðina, bláa, brúna og hvíta, rísa í kolsvörtum himingeimnum yfir gráu, líflausu yfirborði tunglsins. Það var þá sem Bill Anders tók eina frægustu og áhrifamestu ljósmynd sögunnar, myndina Jarðarupprás.

Geimfararnir trúðu vart sínum eigin augum. Úr næstum 400.000 km fjarlægð að sjá var Jörðin svo lítil að Anders gat hulið hana með þumalfingrinum. Samt var þessi hnöttur óskaplega dýrmætur. Þarna voru allir sem hann þekkti og elskaði. Smám saman rann það upp fyrir honum: „Við komum alla þessa leið til að kanna tunglið, en það mikilvægasta sem við uppgötvuðum var Jörðin.“

Fjallað var um þennan sögulega leiðangur í ellefta þætti Kapphlaupsins til tunglsins á Rás 1. Hægt er hlusta á þáttinn hér

Í tilefni þess að 45 ár eru liðin frá leiðangri Apollo 8 hefur NASA birt myndskeið sem sýnir nákvæmlega hvernig geimfarið sneri þegar myndin fræga var tekin og samtölin milli geimfaranna.

Ljósmyndarinn, tunglfarinn Bill Anders, var staddur á Íslandi síðastliðið sumar við upptökur á heimildarmynd um æfingaferðir tunglfaranna til Íslands árin 1965 og 1967. Myndin, sem er framleidd af Mons, verður frumsýnd haustið 2014.

Upptökur á heimildarmynd um æfingaferðir tunglfaranna á Íslandi
Aðstandendur heimildarmyndarinnar ásamt tunglfaranum Bill Anders (í miðjunni) og syni hans Greg Anders (fyrir aftan föður sinn) í ágúst 2013 við Grjótagjá. Á myndinni eru (frá vinstri til hægri), Hrafn Garðarsson, Hlynur Þór Jensson, Sævar Helgi Bragason, Snædís Bergmann, Greg Anders, Bill Anders, Andri Ómarsson, Örlygur Hnefill Örlygsson og Sindri Reyr Einarsson. Mynd: Sindri Reyr Einarsson

Höfundur var svo heppinn að fá árítað eintak af myndinni frá ljósmyndaranum sjálfum.

Mynd: NASA/Apollo 8

Texti: Sævar Helgi Bragason

Ummæli