Marsjeppi í felulitum

27. janúar 2014

  • Marsjeppinn Opportunity í felulitunum í janúar 2014
    Marsjeppinn Opportunity í felulitunum í janúar 2014

Þann 25. janúar 2004 lenti Marsjeppinn Opportunity á Mars. Tíu árum síðar er Opportunity enn að störfum, rykugri en nokkru sinni fyrr eins og sjá má á þessari mynd sem hann tók af sjálfum sér milli 3. og 6. janúar 2014, nokkrum dögum eftir að vindur blés hluta af rykinu burt af sólarrafhlöðunum.

Opportunity lenti á Meridiani Planum, svæði sem gögn frá Mars Global Surveyor og Mars Odyssey geimförunum sýndu að innihélt talsvert magn af steindinni hematíti, sem myndast oft í vatnsríku umhverfi.

Á þeim áratug sem jeppinn hefur verið að störfum á Mars, hefur hann fundið fjölmörg sönnunargögn fyrir fljótandi vatni, þar á meðal vötnuðu súlfatsteindina jarosít og vatnað kalsíumsúlfat, betur þekkt sem gifs. Gifs er örugg sönnun fyrir því að vatn seytlaði um sprungur í berggrunninum.

Opportunity átti upphaflega að endast í rúmlega þrjá mánuði. Hingað til hefur hann ekið tæplega 39 kílómetra frá lendingu og er nú að kanna stóran gíg sem heitir Endeavour.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/Cornell University/Arizona State University

Texti: Sævar Helgi Bragason

Ummæli