Buzz Aldrin á tunglinu

3. febrúar 2014

  • Buzz Aldrin heilsar bandaríska fánanum að hermannasið á tunglinu
    Buzz Aldrin heilsar bandaríska fánanum að hermannasið á tunglinu

Eftir um 45 mínútur á yfirborði tunglsins áttu Neil Armstrong og Buzz Aldrin í Apollo 11 að draga bandaríska fánann að húni. Fáninn var geymdur á fæti tunglferjunnar, samanbrotinn ásamt fánastönginni sem skiptist í eina lóðrétta stöng og aðra lárétta, nokkurn veginn eins og L á hvolfi. Lárétta stöngin átti að halda fánanum útréttum svo hann liti betur út á myndum og í sjónvarpi.

Tíu metra frá Erninum stungu þeir fánastönginni ofan í tunglið. Þeir höfðu aldrei æft sig í að flagga og reyndist verkið mun tímafrekara og erfiðara en nokkur hafði ímyndað sér.

Fánastönginn var fremur óstöðug í yfirborðinu svo við lá að hún félli um koll. Þegar stöngin var orðin nokkuð stöðug, þræddu þeir fánann á láréttu stöngina, en tókst ekki að strekkja alveg úr honum.

Þess vegna virðist fáninn blakta á tunglinu, þótt hann sé grafkyrr.

Neil tók síðan mynd af Buzz heilsa fánanum að hermannasið en engin slík mynd er til af Neil. Raunar eru næstum engar ljósmyndir til af Neil á yfirborði tunglsins. Neil var ljósmyndarinn í ferðinni og þá sjaldan að hann afhenti Buzz myndavélina var Buzz of upptekinn við að taka myndir af einhverju öðru en leiðangursstjóranum, til dæmis eigin fótspori, sem hann átti reyndar að gera.

Texti: Sævar Helgi Bragason

Tenglar

Ummæli