Halastjarnan sem heimsækir Mars

31. mars 2014

  • Halastjarnan Siding Spring á mynd Hubble geimsjónaukans
    Halastjarnan Siding Spring á mynd Hubble geimsjónaukans

Hinn 19. október á þessu ári fer halastjarnan Siding Spring naumlega framhjá reikistjörnunni Mars — svo naumlega raunar að Mars verður sennilega innan í hjúpi hennar með tilheyrandi hættu fyrir geimför á sveimi um reikistjörnuna.

Hinn 11. mars síðastliðinn var halastjarnan komin inn fyrir braut Júpíters á ferðalagi sínu að sólinni, var Hubble geimsjónauka NASA og ESA beint að henni. Halastjarnan var þá í um 565 milljón km fjarlægð frá Jörðinni. Á myndunum sem þá voru teknar sjást tveir strókar skaga út úr kjarnanum og um 20.000 km breiður hjúpur. Þessir sömu strókar sáust fyrst á myndum sem Hubble tók þann 29. október 2013. Strókarnir gera stjörnufræðingum kleift að reikna út snúningshraða og snúningsás halastjörnunnar.

Búið er að vinna myndina hægra megin til að draga fram smáatriði í hjúpnum sem ella sjást illa. Þar koma í ljós tveir strókar sem skaga út úr sitt hvorri hlið halastjörnunnar.

Mynd: NASA, ESA og J.-Y. Li (Planetary Science Institute)

Ummæli