Stjörnumyndunarhringir

9. júní 2014

  • Bjálkaþyrilvetrarbrautin NGC 3081 í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu
    Bjálkaþyrilvetrarbrautin NGC 3081 í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu

Á þessari mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést vetrarbrautin NGC 3081. Vetrarbrautin er í meira en 86 milljón ljósára fjarlægð frá okkur í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu. Í bakgrunni glittir í aragrúa enn fjarlægari vetrarbrauta.

NGC 3081 er Seyfert vetrarbraut af gerð II sem þýðir að hún hefur mjög virkan kjarna. Eins og sjá má er hún harla ólík öðrum þyrilvetrarbrautum. Í miðjunni er bjartur sporöskjulaga hringur umhverfis lítinn stjörnubjálka. Hringurinn er uppfullur af björtum þyrpingum og stjörnumyndunarsvæðum og rammar vel inn risasvartholið sem talið er að lúri í miðjunni. Nágrenni þess skín skært þegar svartholið gleypir efni sem fellur inn í það.

Hringar sem þessir eru kallaðir hermuhringar. Þeir myndast á tilteknum stöðum þar sem þyngdarkraftar í vetrarbrautinni valda því að gas hleðst upp og hleypur í kekki á tilteknum stöðum. Ekki er óalgengt að hringar sem þessir sjáist í bjálkavetrarbrautum því bjálkarnir eru afar áhrifaríkir í að beina gasi á hermusvæðin sem leiðir til stjörnumyndunarhrina.

Myndin var tekin með Wide Field Camera 2 á Hubblessjónaukanum. Hún er sett saman úr útfjólubláu, sýnilegu og innrauðu ljósi.

Mynd: ESA/Hubble og NASA. Þakkir: R. Buta (University of Alabama)

Ummæli