Bjálkaþyrilþokan NGC 201

  • Bjálkaþyrilvetrarbrautin NGC 201 í stjörnumerkinu Hvalnum
    Bjálkaþyrilvetrarbrautin NGC 201 í stjörnumerkinu Hvalnum

Hér sést NGC 201, bjálkaþyrilvetrarbraut sem William Herschel uppgötvaði seint á 18. öld. Vetrarbrautin er í um 200 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Hvalnum.

Myndin var tekin með Hubble geimsjónaukanum. Á henni blasir við bjartur kjarni og þyrilarmar sem skaga út úr stjörnubjálka sem liggur í gegnum miðjuna. Einhvern veginn svona myndi Vetrarbrautin okkar birtast séð utan frá.

NGC 201 tilheyrir hópi vetrarbrauta sem kallast Hickson Compact Group 7 eða HCG 7. Hickson vetrarbrautahópar eru tiltölulega lítil og einangruð kerfi sem innihalda fáeinar bjartar vetrarbrautir. Þegar vetrarbrautirnar í þessum hópum nálgast hver aðra, víxlverka þær sterkt og afmynda aðra hópmeðlimi.

Að lokum, eftir fáeina milljarða ára, munu allar vetrarbrautirnar í HCG 7, renna saman í eina risavetrarbraut. Sennilega eru það örlög allra vetrarbrautahópa, — okkar þar á meðal.

Mynd: ESA/Hubble og NASA. Þakkir: Luca Limatola

Ummæli