Vetrarbraut með glóandi hjarta

7. júlí 2014

  • Þyrilvetrarbrautin NGC 1433 í stjörnumerkinu Sverðfisknum. Mynd: ESA/Hubble og NASA
    Þyrilvetrarbrautin NGC 1433 í stjörnumerkinu Sverðfisknum. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Á þessari mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést NGC 1433, þyrilvetrarbraut í um 32 milljóna ljósára fjarlægð frá Jörðinni. NGC 1433 er mjög virk vetrarbraut af Seyfert-gerð, eins og um 10% allra vetrarbrauta. Mjög bjartir kjarnar einkenna slíkar vetrarbrautir.

Stjörnufræðingar hafa mikinn áhuga á kjörnum vetrarbrauta. Talið er að í miðjum flestra, ef ekki allra, vetrarbrauta séu risasvarthol umvafin skífu úr efni sem er að falla inn í þau.

NGC 1433 er ein 50 nálægra vetrarbrauta sem hafa verið viðfangsefni rannsóknar sem kallast Legacy ExtraGalactic UV Survey (LEGUS) og mælir útfjólubláa geislun frá nýjum stjörnum í vetrarbrautunum. Í Seyfert vetrarbrautum berst útfjólublátt ljós líka frá aðsópskringlum í kringum svartholin í miðjunni. Að rannsaka þessar vetrarbrautir í útfjólubláa hluta litrófsins kemur því að góðum notum við að kanna hvernig gas hegðar sér nálægt svartholinu. Myndin var búin til með því að skeyta saman útfjólubláu, sýnilegu og innrauðu ljósi.

LEGUS mun líka kanna ýmsa aðra eiginleika vetrarbrautanna, þar á meðal innri byggingu þeirra. Rannsóknin mun liggja til grundvallar mælinga með James Webb geimsjónaukanum í framtíðinni og Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA). ALMA hefur þegar skilað óvæntum niðurstöðum um kjarna NGC 1433. Í ljós kom óvænt þyrilbygging í sameindagasinu í miðjunni. Einnig kom í ljós efnisstrókur sem streymdi burt frá svartholinu en náði aðeins 150 ljósár út í geiminn. Það er minnsti sameindastrókur sem sést hefur í annarri vetrarbraut en okkar eigin.

Mynd: ESA/Hubble & NASA. Þakkir: D. Calzetti (UMass) og LEGUS teymið

Ummæli