Eldgos á Íó

11. ágúst 2014

  • Eldgos á Íó í ágúst 2013
    Eldgos á Íó í ágúst 2013

Íó er innsta tunglið af Galíleótunglunum fjórum við Júpíter. Það er álíka stórt og Máninn okkar en vegna gríðarsterkra flóðkrafta frá Júpíter er Íó eldvirkasti hnöttur sólkerfisins.

Stjörnufræðingar beina sjónaukum sínum annað slagið að Íó til að fylgjast með eldvirkninni. Myndir sem teknar voru í innrauðu ljósi með Keck II sjónaukanum á Hawaii í ágúst í fyrra (2013) sýndu að á tveggja vikna tímabili urðu þrjú stórgos á tunglinu. Mælingar sýndu að eldvirknin var ein sú mesta sem mælst hefur í sólkerfinu.

Stjörnufræðingarnir urðu fyrst varir við tvö stórgos á suðurhveli Íós hinn 15. ágúst 2013. Útreikningarnir sýndu að annað gosið, sem varð í dyngju sem kallast Rarog Patera, myndaði hraunbreiðu sem er 130 ferkílómetrar að flatarmáli og að meðaltali um 10 metra þykkt. Hitt gosið varð nálægt dyngju sem kallast Heno Patero og myndaði 310 ferkílómetra breitt hraun.

Til samanburðar er Skaftáreldahraun um 580 ferkílómetrar að flatarmáli.

Þriðja og stærsta gosið sást 29. ágúst. Mælingar sýndu að hitastig gosefnanna var nokkuð hærra en hitastig dæmigerðra hraungosa á Jörðinni. 

Vegna veiks þyngdarkrafts þeyta eldgos á Íó gosefnum út í geiminn. Gosmekkirnir eru regnhlífarlaga og rísa mörg hundruð kílómetra upp frá yfirborðinu.

Mynd: NSF/NASA/JPL-Caltech//UC Berkeley/Gemini Observatory/W. M. Keck Observatory

Ummæli