Stærsta saltslétta Jarðar

22. desember 2014

  • Saltsléttan Salar de Uyuni í Bólivíu
    Saltsléttan Salar de Uyuni í Bólivíu

Í Andesfjöllum Bólivíu er að finna stærstu saltsléttu Jarðar, Salar de Uyuni. Sléttan er um 10% af flatarmáli Íslands, nokkru stærri en Vatnajökull, eða 130 km löng og 100 km breið.

Hér sést saltsléttan á mynd sem tekin var úr Alþjóðlegu geimstöðinni hinn 4. júní 2014. Fyrir rúmum 15.000 árum þöktu nokkur stór stöðuvötn svæðið en fóru hratt minnkandi. Vötnin sem fylltu dældirnar byrjuðu að gufa upp svo sölt féllu út. Hægt og rólega urðu þessi þykku saltlög til sem sumstaðar eru meira en 10 metra þykk.

Áætlað er að í Salar de Uyuni séu um 10 milljarðar tonna af salti. Ár hvert eru um 25.000 tonn unnin úr sléttunni. Á henni eru nokkrar eyjur prýddar kaktusum sem sumir eru nokkur hundruð, eða jafnvel þúsundir ára gamlir.

Sléttan er vinsæll ferðamannastaður og heimsótti höfundur þessa pistils hana árið 2007 og gisti þá á Palacia de Sal, hóteli úr salti.

Mynd: NASA/JSC

- Sævar Helgi Bragason

Ummæli