SPIDER skotið á loft

5. janúar 2015

  • SPIDER loftbelgurinn
    SPIDER loftbelgurinn

SPIDER er tilraun til að mæla örbylgjukliðinn — elsta ljós alheimsins — og skautun í honum. Með því vonast menn til að finna merki þyngdarbylgjur og óðaþensluskeið við Miklahvell.

Jón Emil Guðmundsson er staddur á Suðurskautslandinu þar sem hann vinnur við verkefnið. Hann bloggar um ævintýri sín þar og skrifaði í nýjustu færslunni:

Klukkan 03:00 á nýársdag var SPIDER aftur komin út fyrir flugskýlið, í þetta skiptið á leiðinni út á skotpallinn. Mitt verkefni þennan var dag að sjá um að dælan sem að við notum til að halda sjónaukunum okkar köldum á jörðu niðri hegðaði sér eðlilega á meðan hún ferðaðist um borð í skotbílnum. Við vorum komin út á pall um klukkan 08:00 og veðrið var frábært. Allir voru sammála um að þetta hlyti að gerast í dag. Í þann mund sem að átti að hefjast handa við að blása upp loftbelginn byrjaði vindurinn að láta á sér kræla og okkur var sagt að við yrðum að bíða eftir betra veðri.

Dagurinn leið og vindurinn hélt áfram að blása. Ég lá uppi á skotbílnum og hlustaði á niðinn frá dælunni sem hélt lífi í tilrauninni okkar. Endrum og sinnum heyrðist í verkefnisstjóranum í talstöðinni: „engar fréttir“. Það breyttist klukkan 14:00. Síðustu tveir veðurloftbelgir (þeir senda upp loftbelgi á 30 mín fresti til að kanna aðstæður) gáfu merki um bætt skilyrði. Hjólin fóru að snúast af alvöru upp úr 15:00 þegar þeir hófust handa við að dæla milljón rúmmetrum af helíumgasi inn í loftbelginn okkar. Þá vissum við að ekki yrði aftur snúið.

Rétt fyrir skot var okkur gefið merki um að hefjast handa við síðasta gátlistann. Fimm mínútum síðar stóðum við Bill og Ed á jaðri skotsvæðisins. Enginn vindur. Alger þögn. Síðan gerðist þetta:

Loftbelgurinn svífur nú í um 35 km hæð yfir Suðurskautslandinu og safnar gögnum.

Við óskum Jóni Emil innilega til hamingju með tilraunina og hlökkum mikið til að sjá niðurstöðurnar!

Ummæli