11 ára ökuferð um Mars

26. janúar 2015

  • Mynd Opportunity af Endeavour gígnum á Mars
    Mynd Opportunity af Endeavour gígnum á Mars

Ellefu ár eru liðin frá því að Marsjeppinn Opportunity lenti á Mars. Í tilefni þess ók jeppinn upp á hæsta punkt við hinn 22 km breiða Endeavour gíg og tók þá þessa glæsilegu víðmynd af útsýninu. Á henni sést gígurinn enda á milli. Smelltu hér til að sjá myndina í meiri upplausn.

Til þessa hefur Opportunity ekið tæplega 42 km síðan hann lenti á Meridiani Planum á Mars hinn 25. janúar 2004. Opportunity er því víðförlasti geimjeppi mannkynsins hingað til.

Upphaflega átti Opportunity að endast í um þrjá mánuði en leiðangurinn hefur farið langt fram úr allra björtustu vonum. Á ellefu árum hefur jeppinn fundið fjölda sönnunargagna fyrir blautu umhverfi á Mars til forna.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/Cornell Univ./Arizona State University

Ummæli