Tætingslegur bjálkaþyrill

10. ágúst

  • Bjálkaþyrilvetrarbrautin NGC 428
    Bjálkaþyrilvetrarbrautin NGC 428. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Hubble geimsjónauki NASA og ESA tók þessa glæsilegu mynd af dökkum ryklsæðum og glitrandi stjörnuskara í tætingslegu bjálkaþyrilvetrarbrautinni NGC 428. Hana er að finna í 48 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Hvalnum.

Þyrillögun vetrarbrautinnar er alls ekki augljós. Ástæðan er sú að hún hefur aflagast vegna áreksturs við aðra vetrarbraut. Einnig virðist talsverð stjörnumyndun vera í NGC 428 sem er annað merki um samruna. Við vetrarbrautasamruna rekst gas í vetrarbrautunum saman sem hrindir af stað nýrri hrinu stjörnumyndunar.

William Herschel uppgötvaði NGC 428 í desember árið 1786. Árið 2013 sást í henni sprengistjarna af gerð Ia sem þó sést ekki á myndinni.

Myndin var tekin með Advanced Camera for Surveys (ACS) og Wide Field and Planetary Camera 2 (WFPC2) á Hubble geimsjónaukanum.

Mynd: ESA/Hubble og NASA og S. Smartt (Queen's University Belfast). Þakkir: Nick Rose og Flickr notandinn pnninecloud

Ummæli